Innlent

Handtóku mann sem hljóp nakinn um Reykja­víkur­flug­völl

Sylvía Hall skrifar
Fjölmörg mál komu inn á borð lögreglu í nótt.
Fjölmörg mál komu inn á borð lögreglu í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um nakinn mann sem hljóp um Reykjavíkurflugvöll í miðbæ Reykjavíkur skömmu fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi. Er hann sagður hafa verið í annarlegu ástandi og var hann handtekinn og færður á lögreglustöð, grunaður um húsbrot og eignaspjöll. Í kjölfarið var maðurinn færður á sjúkrastofnun til aðhlynningar vegna ástands.

Stuttu síðar handtók lögregla mann í annarlegu ástandi á heilbrigðisstofnun um klukkan ellefu þar sem hann hafði verið til vandræða. Maðurinn fylgdi ekki fyrirmælum lögreglu og veittist að lögreglumanni þegar átti að vísa honum út. Var hann í kjölfarið vistaður í fangageymslu sökum ástands en þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Á tólfta tímanum var maður handtekinn í gamla Vesturbænum þar sem hann hafði sparkað upp íbúðarhurð og framið eignaspjöll. Maðurinn var í annarlegu ástandi og var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Þá var þrennt vistað í fangageymslu eftir að lögreglan stöðvaði stolna bifreið í Hlíðunum. Tveir karlmenn og ein kona voru í bílnum og eru þau grunuð um stuldinn sem og akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu þeirra.

Lögreglan hafði afskipti af þónokkrum ökumönnum miðsvæðis í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Á áttunda tímanum í gærkvöld var ökumaður til að mynda stöðvaður við Skógarhlíð, grunaður um akstur undir áhrifum og dreifingu og sölu læknalyfja.

Fjórir voru stöðvaðir í Breiðholti, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Skömmu fyrir klukkan þrjú handtók lögregla mann í annarlegu ástandi í Efra-Breiðholti en hann er grunaður um brot á vopnalögum, hótanir og vörslu fíkniefna og var hann vistaður í fangageymslu.

Á þriðja tímanum í nótt barst lögreglu svo tilkynning um umferðaróhapp í Mosfellsbæ þar sem ekið hafði verið á ljósastaur. Ökumaðurinn sjálfur tilkynnti um óhappið en hann er grunaður um ölvun við akstur og var vistaður í fangageymslu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.