Leicester skoraði níu gegn Southampton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vardy og Pérez skoruðu báðir þrennu.
Vardy og Pérez skoruðu báðir þrennu. vísir/getty
Leicester City vann 0-9 útisigur á Southampton í fyrsta leik 10. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar. Með sigrinum komust Refirnir upp í 2. sæti deildarinnar. Ayoze Pérez og Jamie Vardy skoruðu báðir þrennu í leiknum.

Leicester jafnaði þarna stærsta sigur í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Manchester United hafði átt metið frá 1995 þegar liðið vann Ipswich Town, 9-0.



Þetta var einnig stærsti útisigur liðs í sögu efstu deildar á Englandi.



Þetta var jafnframt stærsti sigur Leicester í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Hins vegar var þetta stærsta tap Southampton í sögu félagsins.

Ben Chilwell kom Leicester yfir á 10. mínútu. Ryan Bertrand, fyrirliði Southampton, fékk rautt spjald fyrir ljótt brot á Pérez í aðdraganda marksins. Hann er fyrsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem er rekinn af velli með hjálp myndbandsdómgæslu.

Á 17. mínútu kom Youri Tilemans Leicester í 0-2 og aðeins tveimur mínútum síðar lagði hann upp marki fyrir Pérez.

Spánverjinn skoraði aftur á 39. mínútu og Jamie Vardy kom gestunum frá Leicester svo í 0-5 á lokamínútu fyrri hálfleiks. Þetta er aðeins í annað sinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem lið er fimm mörkum yfir á útivelli í hálfleik. Manchester City afrekaði það einnig gegn Burnley í apríl 2010.



Perez skoraði sitt þriðja mark og sjötta mark Leicester á 57. mínútu eftir sendingu frá Harvey Barnes. Vardy skoraði svo sjöunda mark Leicester aðeins mínútu síðar.

James Maddison skoraði áttunda mark Leicester með skoti beint úr aukaspyrnu fimm mínútum fyrir leikslok og í uppbótartíma skoraði Vardy það níunda úr vítaspyrnu. Lokatölur 0-9, Leicester í vil.

Southampton, sem hefur ekki unnið í fimm leikjum í röð, er í 18. sæti deildarinnar með aðeins átta stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira