Erlent

Ætla nú að senda fleiri hermenn og jafnvel skriðdreka til Sýrlands

Samúel Karl Ólason skrifar
Esper ræddi við blaðamenn í höfuðstöðvum NATO í Brussel í dag.
Esper ræddi við blaðamenn í höfuðstöðvum NATO í Brussel í dag. AP/Virginia Mayo
Bandaríkin ætla að skilja fleiri hermenn en áður hefur komið fram eftir í Sýrlandi með því markmiði að velja ríkar olíulindir gegn vígamönnum Íslamska ríkisins. Þetta kom fram í máli Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, nú í dag. Þar að auki verða fleiri hermenn sendir á svæðið auk skriðdreka og annarra brynvarðra farartækja.

Esper vildi ekki segja hve marga hermenn væri um að ræða.

Ummæli varnarmálaráðherrans eru til marks um óvissa stefnu Bandaríkjanna í Sýrlandi. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í síðustu viku að allir hermenn í Sýrlandi, um þúsund talsins, yrðu kallaðir heim. Svo sagði hann að um 200 yrðu eftir í landinu. Esper sagði svo að hermennirnir sem færu frá Sýrlandi myndu ekki koma aftur til Bandaríkjanna heldur vera í Írak og halda þar áfram að berjast gegn ISIS.

Yfirvöld Írak segja það þó hins vegar ekki koma til greina.

Trump tísti svo í dag og sagði hermennina sem um ræðir vera að fara „á aðra staði“ og væru þeir á „LEIÐINNI HEIM!“ eins og forsetinn orðaði það. Þá sagði hann einnig í umræddum tístum að búið væri að tryggja öryggi olíunnar.



Heimildarmenn AP fréttaveitunnar innan Pentagon, höfuðstöðva herafla Bandaríkjanna, segja að Bandaríkin vilji tryggja að vígamenn Íslamska ríkisins komi höndunum ekki yfir olíulindir á svæðinu og geti nýtt tekjur frá þeim til að byggja samtökin upp á nýjan leik.



Forsvarsmenn hersins hafa að undanförnu þrýst á Trump og embættismenn og vilja hafa viðveru í Sýrlandi því þrátt fyrir að kalífadæmi ISIS hafi verið sigrað er áætlað að tugir þúsunda í Sýrlandi og Írak tilheyri enn samtökunum. Þeir segja umræddar olíulindir mikilvægar vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×