Fótbolti

Guðjón hættur hjá NSÍ og sótti um að taka við færeyska landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón er einn farsælasti þjálfari íslenskrar fótboltasögu.
Guðjón er einn farsælasti þjálfari íslenskrar fótboltasögu. vísir/vilhelm
Guðjón Þórðarson hefur nýtt sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við NSÍ Runavík í Færeyjum. Hann staðfesti þetta við Fótbolta.is.

Í viðtali í „Minni skoðun“ með Valtý Birni á Fótbolta.is staðfesti Guðjón einnig að hann hafi sótt um að taka við færeyska landsliðinu.

Guðjón tók við NSÍ síðasta vetur. Undir hans stjórn endaði liðið í 3. sæti færeysku úrvalsdeildarinnar. Guðjón hafði ekki þjálfað síðan 2012 þegar hann tók við NSÍ.

„Það bendir fátt til þess að ég verði áfram. Það bendir minna til þess en ekki. Ég tók upp viðræður við formanninn, sem ég hef átt mjög gott samstarf við, og ræddi mína stöðu,“ sagði Guðjón.

„Eins og staðan er í dag er ekki útlit fyrir að ég haldi áfram. Ávinningurinn var ekki nógu mikill. Það verður að vera meiri ávinningur ef maður á að vera frá fjölskyldu og stígur í burtu.“

Landsliðsþjálfarastarfið hjá Færeyjum losnar eftir síðustu leikina í undankeppni EM 2020 þegar Lars Olsen stígur frá borði.

„Ég sótti um starfið og það kemur í ljós hvað verður. Þeir ætla að raða upp lista sem þeir skoða í nóvember,“ sagði Guðjón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×