Innlent

Sakar ráðherra um trúnaðarbrest vegna NPA fyrir börn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Vísir/Sigurjón
Samband íslenskra sveitarfélaga krefst þess í bréfi til félagsmálaráðherra að ráðuneytið „dragi tafarlaust til baka ráðagerðir" um „gerbreyttan útreikning á hlutdeild ríkisins í samningsfjárhæðum NPA-samninga. Ráðuneytið segir NPA „ekki hugsað fyrir börn“.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri SÍS, segir í bréfi til Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, að það komi „sambandinu algerlega á óvart að ráðuneytið væri að boða til fundar þau sveitarfélög sem hafa NPA-samninga“ eftir að áður hafi verið ákveðið að leysa úr ágreiningi í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum.

„Umrædd breyting samræmist hvorki gildandi lögum, reglugerð né viðtekinni framkvæmd við innleiðingu NPA allt frá 2012. Nái hún fram að ganga myndi það kollvarpa fjárhagslegum samskiptum vegna verkefnisins enda sætu sveitarfélög uppi með útgjaldaauka sem gæti numið allt að 100 milljónum króna á ársgrundvelli.“

Karl segir sambandið krefjast þess að ráðuneytið dragi þessar ráðagerðir til baka tafarlaust. „Má augljóst vera að útspil af þessu tagi – án nokkurs samráðs við sambandið – er til þess fallið að skaða traust og trúnað í samskiptum mili stjórnsýslustiga,“ undirstrikar framkvæmdastjórinn.

Bréfi framkvæmdastjórans fylgir minnisblað frá lögfræðisviði sambandsins. Er þar vitnað til fundargerðar frá 18. september. „Ráðuneytið segir það skýrt að NPA er ekki hugsað fyrir börn, en gæti mögulega átt við fyrir ungmenni,“ er rakið úr fundargerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×