Lífið

„Leið eins og mér hefði verið kippt út úr mínu lífi“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Guðrún Helga Sørtveit beið í óvissu í nokkrar vikur og fór í daglegar blóðprufur þegar hún varð ólétt í fyrsta skipti.
Guðrún Helga Sørtveit beið í óvissu í nokkrar vikur og fór í daglegar blóðprufur þegar hún varð ólétt í fyrsta skipti. Vísir/Vilhelm

Guðrún Helga Sørtveit varð ótrúlega hissa og spennt þegar hún fékk jákvætt svar á óléttuprófi í byrjun árs. Þessi gleði átti þó fljótt eftir að breytast í óvissu, hræðslu og sorg. Utanlegsþungun er eitthvað sem margar konur hafa gengið í gegnum, en Guðrún segir að það þurfi að opna umræðuna enn frekar, til að fræða og reyna að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar þeirra. Hún á von á barni núna og upplifði mikla hræðslu við að lenda aftur í því sama. 

„Við vorum ekki að reyna að verða ólétt. Það er náttúrulega oftast á planinu hjá pörum sem eru búin að vera lengi saman, við Steinar vorum búin að vera saman í átta ár og það var alltaf okkar plan að verða fjölskylda.“ segir Guðrún um sína fyrstu þungun.

„Við ætluðum fyrst að vera búin að kaupa okkur íbúð og ýmislegt áður, við vorum reyndar komin með íbúð þarna en ég var enn í námi.“ Þó að þungunin hafi verið óvænt urðu þau samt strax mjög spennt fyrir þessu litla lífi.

„Maður var ótrúlega hissa en það var svo mikil gleði líka. „Oh my god“ allar þessar tilfinningar þegar maður pissar á óléttupróf.“
Hún tók alveg nokkur þungunarpróf til þess að vera alveg viss og niðurstaðan var alltaf sú sama, tvær línur, hún var ófrísk. Guðrún og Steinar fóru svo í snemmsónar hjá kvensjúkdómalækni nokkru seinna, til þess að fá að sjá krílið sitt.

„Þá sér hún bara ekkert í leginu. Það er sorglegt að hugsa um þetta núna, við vorum alveg geðveikt spennt, við vorum í fyrsta skipti að gera svona saman. Þetta var alveg ótrúlega erfitt. Hún segir okkur að það sé ekkert í leginu og þá hugsaði ég, kannski missti ég bara, enda eru margir sem lenda í því.“
 

Steinar og Guðrún á sjúkrahúsinu. Mynd/ Úr einkasafni

Getur verið lífshættulegt 

Læknirinn lét Guðrúnu taka þungunarpróf og var niðurstaðan mjög afgerandi. „Það komu strax tvær eldrauðar línur. Hún segir geðveikt rólega að þetta geti nú verið utanlegsfóstur. Ég spurði hvað það væri en hún sagði þá að við ættum ekki að vera að gera mikið mál úr því núna, fyrsta skref væri að taka blóðprufu.“

Næstu tvær vikur voru Guðrúnu og Steinari virkilega erfiðar. „Ég fór næstum daglega í blóðprufur en læknarnir gátu samt ekkert sagt mér hvort þetta væri utanlegsfóstur eða ekki. Að lokum var þetta greint sem utanlegsfóstur, sem getur verið lífshættulegt ef það er ekki greint strax. Þá er fóstrið fast í eggjaleiðaranum, ef hann springur getur orðið innvortis blæðing.“

Guðrún segir að þó að óvissan hafi vissulega tekið á, hafi líka verið mjög erfitt að fá staðfesta greiningu, ekki síst í ljósi þess að fyrir þetta hafði hún aldrei heyrt talað um utanlegsfóstur eða utanlegsþungun áður.

„Það var svo mikið sjokk, ég bjóst svo innilega ekki við þessu. Ég hugsaði að það versta væri að missa fóstur, ég held að það hugsi margir. Ég hafði bara aldrei heyrt um þetta, ég var í sjokki og hélt fyrst að ég væri bara ein á spítalanum með þetta.“ Hún komst þó að því að þetta er mun algengara en hún gerði sér grein fyrir og furðaði sig strax á því að það væri ekki rætt meira um þetta. Guðrún varð mjög hrædd þegar hún fór á Google og las að þetta gæti verið lífshættulegt. Læknarnir sögðu henni að hún myndi örugglegörugglega hníga niður ef að eggjaleiðarinn springur.
„Það var svo mikil hræðsla, ég hugsaði hvað ef ég dett niður? Svo var ég líka bara að hugsa um sorgina við þetta allt saman. Ég þorði varla að gera neitt.“


Krabbameinslyf eða aðgerð

Hún segir að það hafi verið mjög erfitt að ganga í gegnum þennan missi. „Þú hefur einhvern vegin enga stjórn. Ég gat bara valið um að fara á gömul krabbameinslyf eða að fara í aðgerð, tveir ömurlegir valmöguleikar.“

Krabbameinslyfin taka lengri tíma, jafnvel fjórar til sex vikur. Lyfið endar þungunina og gerir líkamanum kleift að hreinsa fóstrið burtu, það stöðvar vöxt frumna sem skipta sér hratt. Lyfinu er sprautað í vöðva og er þungunarhormón mælt í blóði í vikulegu eftirliti þar til gildin eru orðin neikvæð.

„Þetta er held ég frekar einföld aðgerð en þetta eru samt fjórir skurðir og svolítið stór pakki. Að lenda í þessu þegar ég bjóst ekki við því,  mér leið eins og mér hefði verið kippt út úr mínu lífi einhvern veginn. Ég missti bara marga mánuði út úr árinu, ég er liggur við enn í áfalli.“

Guðrún valdi að fara í aðgerðina, enda hafði hún verið í óvissu og daglegum blóðprufum í tvær til þrjár vikur og vildi að þessu myndi ljúka.

„Það var líka búið að vera að skoða hvort það væri eitthvað komið í legið. Þeir voru alltaf að vonast eftir því, sem maður skilur alveg, en ég skildi það ekki þá. Ég skildi ekki af hverju þeir gátu ekki bara greint mig, hvað væri að. Þetta er svo langt ferli og þetta er svo óhugnanlegt, ég var hrædd allan tímann. Læknarnir voru samt alveg æðislegir upp á kvennadeild og allir voru svo almennilegir, þeir hafa gert svo oft þessa aðgerð svo maður treystir þeim einhvern veginn.“


Mannslíkaminn magnaður

Aðgerðin fer þannig fram að kviðarholsspeglun er gerð og lítil myndavél er færð inn í kvið um nafla þannig að hægt sé að skoða eggjaleiðarana og önnur líffæri. Guðrún var svæfð fyrir aðgerðina.

„Mér var því oft búið að vera sagt nokkrum sinnum að mæta fastandi, því ég vissi ekkert hvort eða hvenær aðgerðin yrði gerð. Það var líka mjög óþægilegt, þessi óvissa. Það er bara svo erfitt að greina þetta nema með aðgerð.“

Guðrún segir að sjálfri hafi henni fundist aðgerðin mjög dramatískt ferli en læknunum hafi samt væntanlega bara fundist þetta eðlilegt. Í flestum tilfellum af utanlegsþungun þarf einnig að fjarlægja eggjaleiðarann og var það gert hjá Guðrúnu, eggjastokkar og hinn eggjaleiðarinn voru samt ennþá eftir.

„Annar eggjaleiðarinn er tekinn en hinn byrjar oft þá að vinna fyrir þá báða, sem er alveg magnað,“ útskýrir Guðrún. Hún varð samt hrædd þegar hún las að í sumum tilfellum eru báðir gallaðir og stundum hættir hinn líka að virka.

„Ég var bara 25 ára og í sjokki og hugsaði að kannski gæti ég þá ekki eignast börn, en þau sögðu við mig að tæknin væri svo góð að ég gæti þá farið í einhverja meðferð. Ég hugsaði um það af hverju þetta væri að gerast, hvað ég væri að gera vitlaust. Það geta samt verið svo margar ástæður fyrir þessu og það getur líka verið engin ástæða. Ég hélt að þetta væri ekki svona flókið, ég hélt að þetta yrði einfaldara.“

Guðrún heldur úti vinsælli Instagram síðu (@gudrunsortveit) ásamt því að skrifa á síðuna Trendnet.is Vísir/Vilhelm

Lærdómsrík reynsla

Guðrúnu leið á þessum tíma eins og hún væri gölluð, sem hún segir að sé skelfileg tilfinning. „Mér leið eins og ég væri að bregðast öllum, þá sérstaklega Steinari.“

Í eðlilegri þungun frjóvgast egg í öðrum hvorum eggjaleiðaranna og flyst svo inn í legið þar sem það festist í legslímunni, með tímanum myndast þar fóstur. Í utanlegsþungun festist frjóvgaða eggið fyrir utan legið, oftast í öðrum hvorum eggjaleiðaranum. Eggjaleiðarinn getur ekki þanist út eins og legið og því er hætta á að eggjaleiðarinn rofni þegar fóstrið stækkar sem getur valdið innvortis blæðingum og verið lífshættulegt konunni. Guðrún er þakklát fyrir að hafa farið í þennan snemmsónar, sem varð til þess að hægt var að grípa inn í áður en það gerðist.

„Sumt er manni bara ætlað að fara í gegnum og maður lærir ótrúlega mikið á þessu. Það er svo mikið kraftaverk að verða ólétt og að það gangi vel.“


Varð ennþá ástfangnari

Guðrún segir að hún hafi strax eftir heimsóknina til kvensjúkdómalæknisins orðið mjög neikvæð og var ekki bjartsýn á að þetta gæti endað vel. „Ég fann bara að þetta var ekki eins og þetta átti að vera. Kærastinn minn sagði samt alltaf, jú kannski. Kvensjúkdómalæknirinn sagði nefnilega við okkur að þetta gæti líka kannski verið tvíburar eða þríburar af því að gildin voru svo há. Steinar var alltaf jákvæður sem var líka geðveikt erfitt að heyra, því hann varð líka svo sár.  Mér fannst þetta svo leiðinlegt því að mér leið eins og það væri eitthvað að mér, að ég væri að skemma allt einhvern vegin.“

Þegar Guðrún fór í aðgerðina var Steinar líka nýbúinn í aðgerð á hné.

„Við vorum eins og ég veit ekki hvað uppi á spítala, þetta var bara ástand. Hann er í fótbolta og reif liðþófa, hann var á hækjum og ef að við hittum einhvern sem við þekktum uppi á spítala héldu allir að við værum þarna út af honum. Sem betur fer á ég gott fólk að.“Guðrún segir að stuðningur Steinars, mömmu og pabba, fjölskyldunnar og vinkvennanna hafi verið gríðarlega mikilvægur allan þennan tíma.

„Þetta var ótrúlega erfitt fyrir þau líka. Ég hafði alltaf verið svo heilbrigð svo þetta var sjokk.“ Nánustu aðstandendur og vinir héldu vel utan um Guðrúnu eftir missinn og styrkti þetta líka samband hennar og Steinars mjög mikið.
„Ég vissi alveg fyrir að hann væri æðislegur, en ég varð bara miklu meira ástfangin af honum því hann var svo góður við mig.“
Guðrún var rúmliggjandi heima hjá sér fyrst eftir aðgerðina og tók því rólega, líkaminn jafnaði sig vel. Saumarnir eftir aðgerðina leystust upp á um það bil mánuði en andlega bataferlið getur tekið mun lengri tíma en það. 

„Það voru nokkrar vikur sem ég var rúmliggjandi og það var ömurlegur tími því að ég er alltaf að gera eitthvað. Allir sem þekkja mig vita að ég er alltaf með svona hundrað hluti í gangi og ég elska það.“

Guðrún segir að þetta hefði ekki verið svona mikið áfall ef hún hefði vitað meira um utanlegsþunganir. Vísir/Vilhelm

Vildi hjálpa öðrum í sömu stöðu

Guðrún ákvað að skrifa um reynslu sína í einlægri bloggfærslu á Trendnet. Hún er vinsæll bloggari á síðunni. auk þess að hún er viðskiptafræðinemi, förðunarfræðingur og með stóran fylgjendahóp á Instagram. Stór hluti lesenda og fylgjenda hennar eru ungar konur og því fannst henni mikilvægt að opna sig á þeim vettvangi. 

„Ég gerði það ekki beint fyrir mig, heldur meira fyrir aðra. Ég gerði þetta alls ekki til þess að vekja athygli á mér, þó að ég sé virk á samfélagsmiðlum þá er þetta viðkvæmt mál. Ég vildi bara reyna að hjálpa öðrum.“  Hún bendir á að þetta er eitthvað sem allar konur á barneignaraldri geti lent í, hvort sem þær hafi orðið ófrískar áður eða ekki.

„Mér fannst erfitt að vera ekki á samfélagsmiðlum, að vera ekki að gera það sem ég elska, að vera að skrifa um snyrtivörur og blogga. Ég dró mig fyrst alveg í hlé en ég held að flestir sem eru að fylgjast með mér hafi hugsað að það væri eitthvað í gangi, sem er mjög skrítið og nútímalegt. Svo ákvað ég að setja inn að þetta væri í gangi. Ég hugsaði að ég gæti hjálpað kannski einhverjum með því að segja frá minni upplifun.“

Eftir að hún sagði frá utanlegsþunguninni fór hún í kjölfarið að heyra af konum í kringum sig og sína nánustu sem höfðu gengið í gegnum það sama. „Eftir að ég skrifaði á Trendnet fékk ég mörg skilaboð frá konum sem höfðu lent í þessu. Það var gott að finna að ég var ekki ein. Það er samt svo leiðinlegt hvað það er talað lítið um þetta.“

Spenntir og hamingjusamir verðandi foreldrar! Mynd/Úr einkasafni

Brenndur af fyrri reynslu

Guðrún og Steinar eiga nú von á barni og er hún á 24.viku meðgöngunnar. Þegar Guðrún tók óléttupróf sá hún föla línu á prófinu, Steinar reyndi að segja henni að bíða í nokkra daga með að taka annað próf. 

„Hann var svo brenndur eftir hitt, vildi ekki vera að gera upp vonir hjá sér og ekki mér heldur. Hann sagði bíðum aðeins róleg en ég sagði bara nei, ég fór daginn eftir og keypti annað próf.“ Niðurstaðan á því prófi var mun meira afgerandi jákvæð, Guðrún varð ófrísk aðeins tveimur mánuðum eftir aðgerðina. Reynsla þeirra hefur því haft töluverð áhrif á þessa meðgöngu.

„Ég er enn að jafna mig og það er ennþá erfitt að tala um þetta, sérstaklega núna,“ segir Guðrún og lítur niður á fallegu kúluna sína. „Þetta er búið að vera mjög skrítið ár, að verða svona fljótt ólétt aftur og mikill kvíði í kringum það. Ólýsanlegur kvíði einhvern veginn, sem enginn sér.“
 

Erfitt að fara aftur í sónar

Hún viðurkennir að það hafi komið á óvart að geta orðið ófrísk aftur svona fljótt, enda var hún búin að lesa ansi margar neikvæðar sögur á netinu. Guðrún segir að það sé líka þess vegna sem hún sé fegin að geta deilt sinni reynslu með þessum hætti, því sagan endi vel.

„Þetta var eitthvað sem okkur langaði ótrúlega mikið, sérstaklega eftir að hafa gengið í gegnum allt þetta. Það er svo skrítið að missa eitthvað sem maður átti ekki einu sinni, það er eiginlega ólýsanleg tilfinning. Þetta var eitthvað sem ég vissi ekki hvað mig langaði ótrúlega mikið í, fyrr en ég missti það.“

Guðrún segir að það hafi verið erfitt að fara í snemmsónar í byrjun meðgöngunnar, sem hún þurfti að gera tvisvar.
„Þetta var svo gaman en svo kom sjokkið þegar við áttum að fara til kvensjúkdómalæknisins. Það var líka búið að segja mér að ef ég yrði ófrísk aftur þá þyrfti ég að fara tvisvar í snemmsónar til að athuga hvort allt væri að ganga eðlilega fyrir sig. Ég man að ég sat hjá kvensjúkdómalækninum að bíða eftir því að hún myndi kalla mig upp, og það var bara liggur við að líða yfir mig ég var svo hrædd að þetta myndi gerast aftur. Þetta var hrikalegt.“
Í snemmsónarnum sást lítið fóstur og grét Guðrún af gleði í lyftunni á leiðinni niður eftir tímann. Seinni sónarinn kom líka vel út. 
„Við vorum svo ótrúlega ánægð. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að þetta gerðist strax, það var erfitt en ég er samt á því að þetta átti bara að gerast.“

Guðrún á von á stúlku í febrúar á næsta ári. Vísir/Vilhelm

Tilfinningarússíbani

Meðgangan hefur gengið nokkuð vel í þetta skiptið, Guðrún var samt að kljást við ógleði fyrstu vikurnar og var einnig mjög kvíðin. „Ég var óþolandi við alla, því að ég hélt alltaf að það væri eitthvað að, sem er held ég bara eðlilegt. Ég kann ekki að lýsa þessu, ég man varla eftir fyrstu vikunum. Maður er svo kvíðinn og svo óglatt á hverjum degi í þrjá mánuði. Sem betur fer var ég ekki ælandi.“

Guðrún segir að á meðan hún upplifði ógleði, kvíða og þreytu þorði hún varla að kvarta, hún vildi ekki vera vanþakklát. „Ég held að margar sem hafa lengi reynt að eignast barn gætu líka tengt við að þora ekki að kvarta ef eitthvað er að. Sem er ótrúlega skrítið en þetta er bara svo mikill tilfinningarússíbani. Þetta er samt alveg magnað.“  


Reynir að njóta 

Í byrjun meðgöngunnar reyndi Guðrún að fela kvíðann með því að setja upp grímu og segja fólki að allt væri í lagi. Í mæðraskoðun hjá ljósmóður kom þó í ljós að hún var með mjög mörg einkenni þunglyndis og kvíða á meðgöngu. „Hún sagði mér að maður verður að passa andlega líðan fyrir barnið og líka að leyfa sér bara að njóta en ekki bara að hugsa það versta eins og ég var búin að vera að gera. Ég ákvað að taka þetta bara viku fyrir viku, reyna að njóta og hlakka til aðeins.“

Eftir 20 vikna sónarinn var kvíði Guðrúnar búinn að minnka og segir hún að sú skoðun hafi róað sig töluvert. Þau fengu einnig að vita þá að þau eiga von á lítilli stúlku.
„Þetta er ótrúlega gaman, við erum svo spennt.“
Guðrún reynir nú að njóta meðgöngunnar og kaupa aðeins inn það sem vantar. Þetta er fyrsta barn þeirra beggja svo það er ýmislegt sem þarf að útvega áður en stelpan þeirra kemur í heiminn, en settur dagur er 1. febrúar á næsta ári. Á meðan er hún einnig á fullu í skólanum og í vinnu.

„Mig dreymir um að vinna eitthvað markaðstengt. Ég held að það sé þess vegna sem ég elska samfélagsmiðla svona mikið, mér finnst þetta svo geggjað markaðstól. Ég væri alveg til í að vera markaðsstjóri eða vörumerkjastjóri eða eitthvað slíkt. Það er markmiðið og því sé ég samfélagsmiðlana sem frábæra reynslu, þetta er búið að gefa mér svo mikið af tækifærum.“

Sýnir ekki allt lífið á Instagram

Heimur samfélagsmiðla er samt mjög langt því að vera gallalaus. „Eins og að fólk heldur að þetta sé voðalega klippt og skorið, að svona sé bara lífið hjá þessum aðilum. Ég var einmitt að hugsa um daginn, að ég er búin að sýna aðeins frá meðgöngunni og svoleiðis, en ég er bara búin að sýna það sem er að ganga sjúklega vel. Bara búin að sýna öll sætu fötin sem ég er búin að kaupa og þess háttar. Það er ekkert viljandi, að ég vilji að fólk haldi að svona sé lífið hjá mér, maður er kannski bara oft hræddur við að opna sig meira.“ 

Þó að Guðrún virðist kannski deila miklu á samfélagsmiðlum, þá er mjög margt í hennar lífi sem sést mjög sjaldan eða aldrei á hennar bloggi og á Instagram.

„Ég held að ég eigi mjög auðvelt með að setja mörk. Ég sýni til dæmis eiginlega aldrei þegar ég er með vinkonum mínum og ég sýni eiginlega aldrei kærastann minn, ég sýni eiginlega aldrei fjölskyldu mína. Það er alveg sumt sem ég sýni aldrei. Ég sýni eiginlega aldrei alla íbúðina mína, ég sýni alveg eitthvað en þetta er bæði heimili mitt og Steinars.“

Guðrún segir að hún hleypi ekki mörgum alveg að sér í lífinu og þannig sé það líka á samfélagsmiðlum. „Það eru sumir sem hleypa fólki rosalega nærri sér og það er bara mjög flott líka. Fólk verður samt að átta sig á því að það er samt mjög mikið sem fólk er ekki að sýna.“

Það er oft sem Guðrún fær spurningar um það hvað hún sé eiginlega að gera á daginn, en það er kannski þar sem hún sýnir ekkert mikið frá því þegar hún er í háskólanum eða í vinnunni.
„Þetta er galli en samt líka kostur, að hver og einn getur valið. Það er samt slæmt að fólk geri sér upp einhverja mynd af fólki, því þú veist aldrei hvað aðrir eru að ganga í gegnum.“
Helsti kosturinn sem Guðrún sér við samfélagsmiðla er að þetta getur verið stór vettvangur til þess að vekja athygli á einhverju málefni og koma á framfæri jákvæðum skilaboðum.

„Þetta er líka ótrúlega skemmtilegt og hjálpar mörgum. Það eru svo margir að nýta þetta til góðs.“

Guðrún er byrjuð að velta því fyrir sér hvernig hún ætlar að breyta því sem hún sýnir á samfélagsmiðlum eftir að hún verður móðir. Sumar mæður á samfélagsmiðlum auglýsa fatnað og vörur frá samstarfsaðilum á barnamyndum sínum á Instagram.

„Ég veit ekkert hvað ég ætla að gera. Mig langar auðvitað að sýna barnið mitt, það segja allir að maður  verði óþolandi og vilji sýna öllum hvað barnið mans er fallegt, en svo vill ég hafa einhver mörk, það er einhver lína sem ég vill ekki fara yfir,“ segir Guðrún. „Svo fer það líka eftir því hvað Steinar vill, hann er ekki mikið á samfélagsmiðlum.“ 

Hún er virkilega spennt fyrir móðurhlutverkinu og að sjá hvort dóttirin muni líkjast þeim eitthvað í útliti eða persónuleika.
„Ég er bara spennt að verða mamma, mér finnst ótrúlega skrítið að segja að ég sé að verða móðir. Ég er spennt að sjá hvernig þetta hlutverk verður, ég ætla ekki að setja pressu á mig að vera svona eða hinsegin, mér finnst ég bara vera svo tilbúin í þetta.“


 
 
 
View this post on Instagram
 
A post shared by G U Ð R Ú N S Ø R T V E I T (@gudrunsortveit) on

Getur verið án einkenna

Það er ekki vitað að fullu af hverju utanlegsþungun verður og hún er stundum einkennalaus. Algengasta einkennið er verkur öðru hvorum megin neðarlega í kvið. Verkurinn getur byrjað skyndilega eða komið fram á nokkrum dögum og ýmist verið stöðugur eða í hviðum. Einnig geta verið tíðar smáblæðingar frá leggöngum.

Ef um er að ræða kviðverk og svima samtímis getur það verið merki um blæðingu í kvið og er mikilvægt að hafa samband við kvennadeild ef slík einkenni koma fram. Nánari upplýsingar má finna á vef Landspítalans.


Tengdar fréttir

Konur eru ekki í einni stærð

„Ég er ekkert sérstaklega norsk í mér en ég er afar stolt af norsku ættarnafninu,“ segir Guðrún Helga Sørtveit. Föðurafi hennar er Norðmaður.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.