Fótbolti

Southgate: Leikmennirnir fóru brosandi af velli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það sást ekki að Raheem Sterling hefði látið níð stuðningsmanna Búlgaríu á sig fá
Það sást ekki að Raheem Sterling hefði látið níð stuðningsmanna Búlgaríu á sig fá vísir/getty
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, sagði leikmenn sína hafa gengið af velli í Búlgaríu með bros á vör þrátt fyrir að stórsigur þeirra hafi fallið í skugga kynþáttaníðs.

England vann 6-0 sigur ytra og fór langt með að tryggja sæti sitt í lokakeppni EM 2020. Leikurinn fellur þó í skugga hegðunar stuðningsmanna Búlgara, en dómarinn þurfti tvisvar að stöðva leikinn vegna kynþáttaníðs.

„Þessir síðustu dagar hafa verið ótrúlegir. Við þurftum að búa okkur undir þennan veruleika. Það mikilvægasta var að leikmennirnir og starfsfólkið var tilbúið fyrir hvernig ætti að bregðast við,“ sagði Southgate við BBC eftir leikinn.

„Það ætti enginn að þurfa að upplifa það sem leikmennirnir okkar þurftu að þola.“

Í annað skipti sem dómarinn stöðvaði leikinn var hann í fullum rétti samkvæmt reglum UEFA til þess að segja leikmönnum að ganga af velli. Það var hins vegar ekki gert.

„Við fórum eftir reglunum. Við létum fótboltann okkar sjá um að tala og við stöðvuðum leikinn tvisvar. Það er kannski ekki nóg fyrir suma en við getum ekki gefið öllum það sem þeir vilja.“

„En við gáfum leikmönunm það sem þeir vildu. Það er ótrúlegt að eftir allt saman þá fóru leikmennirnir af velli með bros á vör og það er það mikilvægasta fyrir mér.“

„Dómarinn var í stöðugum samskiptum við okkur. Í seinna skiptið sem leikurinn var stöðvaður hefðum við getað gengið af velli en leikmennirnir vildu halda áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×