Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Írland 1-0 | Naumur sigur kom Íslandi upp í 2. sætið

Ísak Hallmundarson skrifar
Úr leik liðanna í dag.
Úr leik liðanna í dag. vísir/vilhelm
Íslenska landsliðið skipað leikmönnum 21 árs og yngri tók á móti Írlandi í Víkinni í Fossvoginum í dag. Lokatölur leiksins 1-0 Íslandi í vil þökk sé marki Sveins Arons úr vítaspyrnu. 

Fyrir leikinn voru Írar á toppi riðilsins með 10 stig en Ísland í 3.sæti með 6 stig og leik til góða á Írland. 

Íslendingar byrjuðu leikinn betur og áttu nokkrar góðar sóknir snemma leiks. Strákarnir pressuðu hátt og virtust einfaldlega mun hungraðri á meðan Írar misstu boltann mikið frá sér.  

Á 29.mínútu leiksins fékk Ísland vítaspyrnu eftir að Lee O‘Connor handlék boltann inn í vítateig. O‘Connor fékk gult spjald fyrir vikið. Sveinn Aron Gudjohnsen fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi, 1-0 Íslandi í vil. Yfirburðir Íslands héldu áfram þangað til flautað var til hálfleiks en Írar ógnuðu marki Íslands lítið sem ekki neitt fram að því. 

Seinni hálfleikurinn fór vel af stað hjá íslenska liðinu og strákarnir héldu áfram að spila framarlega á vellinum og spiluðu boltanum vel sín á milli. Síðustu 15 mínúturnar eða svo fóru Írar að ógna meira en aldrei þannig að það væri mikil hætta fyrir Ísland.  

Á 89.mínútu fékk Lee O‘Connor að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt og Íslendingar spiluðu því manni fleiri síðustu mínútur leiksins.  

Lokatölur urðu 1-0 sigur Íslands og geta strákarnir verið stoltir af þessari frammistöðu eftir erfitt tap um helgina. Næsti leikur Íslands er úti gegn Ítalíu eftir tæpan mánuð.

Arnar Þór á hliðarlínunni í dagVísir/Bára
Arnar Þór: Ætlum aðeins að fá að njóta þess að hafa tekið þrjú stig 

Arnar Þór, þjálfari Íslands var að vonum ánægður með sigurinn í dag. Hann segir að strákarnir hafi svarað fyrir sig eftir erfitt tap í síðasta leik. 

,,Við töluðum um það strax eftir Svía leikinn að við hefðum einfaldlega verið skotnir niður, við töpuðum í rauninni fyrir sjálfum okkur þar. Ég var mjög ánægður með vinnusemina, strákarnir voru mættir til leiks í dag í einvígunum, mættir til leiks í þeim hlaupaleiðum sem við töluðum um og voru stórkostlegir allir saman. Það er svona sem maður svarar fyrir erfiða leiki,’’ sagði Arnar. 

Arnar segir riðilinn frekar jafnan og telur að liðin eigi eftir að taka stig af hvoru öðru.

,,Þú sérð að Írar eru í fjórða styrkleikaflokki, það er líklega erfiðasta liðið sem við gátum fengið úr þeim styrkleikaflokk, þannig þetta verður líklega spennandi langt fram eftir.’’ 

Aðspurður út í næsta verkefni sem er leikur gegn Ítölum á útivelli segir Arnar það leggjast vel í sig. Strákarnir muni reyna að spila þann leik eins og þeir spiluðu í dag.

,,Þeir eru með mjög gott lið. Við ætlum til Ítalíu til að reyna að spila leik eins og við spiluðum í dag, en við ætlum fyrst aðeins að fá að njóta þess að hafa tekið þessi þrjú stig,’’ segir Arnar, greinilega sáttur með sigur sinna manna.

Sveinn Aron skoraði sigurmark dagsins úr vítaspyrnuVísir/Bára
Sveinn Aron: Vildum sigurinn meira en þeir 

Sveinn Aron Guðjohnsen, markaskorari íslenska liðsins í dag, var ánægður með endurkomu liðsins eftir tapið í Svíþjóð. 

,,Eftir tapið um helgina ætluðum við að mæta í þennan leik og taka þessi þrjú stig og það gekk upp. Við ætluðum gjörsamlega að keyra yfir þá, sem við gerðum og við vildum bara sigurinn meira en þeir,’’ segir Sveinn. 

Sveinn segist hafa verið sérstaklega ánægður með liðsheildina.

,,Að koma til baka eftir 5-0 tap og spila svona vel á móti liði sem var taplaust, það er frábært.’’ 

,,Við ætlum að fara til Ítalíu í næsta mánuði og taka þrjú stig þar eins og í hverjum einasta leik,’’ sagði Sveinn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.