Innlent

Utan­ríkis­ráð­herra mun aldrei sam­þykkja ríkis­á­byrgð á banka­inni­stæður

Heimir Már Pétursson skrifar
Utanríkisráðherra leggst gegn því að gerð Evrópusambandsins um ríkisábyrgð á innistæður í bönkum verði tekin upp hér á landi og hann muni aldrei standa að því á meðan hann gegni embætti utanríkisráðherra. Bankar muni fara á hausinn í framtíðinni og með því að samþykkja ríkisábyrgð sé Icesave vörnin farin.Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mælti fyrir tveimur skýrslum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) á Alþingi í dag, annars vegar skýrslu starfshóps sem þrettán þingmenn óskuðu eftir og síðan skýrslu um framkvæmd samningsins undanfarið ár. Hann sagði þátttöku einstakra ráðuneyta og stofnana við tillögumótun innan EES samstarfsins hafa verið eflda þannig að Íslendingar kæmu að málum á frumstigi þeirra.En hann nefndi einnig mál sem verið hafi í mótun hjá Evrópusambandinu allt frá 2014 sem hann myndi aldrei samþiggja sem væri upptaka ríkisábygðar á innistæður í bönkum. Hann hafi fyrst andmælt þessu árið 2014.„Nægir að nefna að Icesavemál framtíðarinnar munu tapast verði slíkt ákvæði tekið upp í íslensk lög. Og það er alveg sama hversu góð kerfi Evrópusambandið eða aðrir finna upp; bankar munu fara á hausinn,“ sagði utanríkisráðherra. Kerfið sem var í gildi fyrir bankahrunið hafi átt að koma í veg fyrir slík áföll.„Ég ætla að lýsa því hér yfir að ég mun sem utanríkisráðherra Íslands aldrei standa að því að Ísland samþykki í sameiginlegu EES nefndinni eða á vettvangi EES samstarfsins upptöku og innleiðingu þessarar löggjafar með þeim hætti að hún feli í sér ríkisábyrgð á bankainnistæður. Aldrei,“ sagði Guðlaugur Þór. Þingmenn flestra flokka lýstu ánægju með skýrslurnar sem utanríkisráðherra mælti fyrir en ítrekuðu að íslensk stjórnvöld stæðu betur vaktina við mótun mála innan EES samstarfsins. Þó mátti skynja efasemdir hjá Ólafi Íslifssyni sem var fyrstu flutningsmaður á beiðni um gerð skýrslu um kosti og galla EES samstarfsins, meðal annars út af orkupakkamálinu þar sem skýrsla um stöðu mála hefði mátt koma fram fyrr.„Þess vegna fagna ég þeirri umræðu sem er hér um það að við beitum okkur í þessu ferli öllu saman á fyrri stigum en okkur auðnaðist að gera í orkupakkamálinu,“ sagði Ólafur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.