Tveggja vikna afplánun Felicity Huffman hófst í gær

Bandaríska leikkonan Felicity Huffman, sem er hvað þekktust fyrir hlutverk sitt í þáttunum Desperate Housewifes, hefur hafið afplánun á fjórtán daga fangelsisdómi sínum sem hún hlaut í september fyrir hlut sinn í víðfrægri háskólasvikamyllu. Leikkonan játaði að hafa ráðið manneskju til þess að leiðrétta svör dóttur sinnar á inntökuprófi fyrir háskóla.
Sjá einnig: Felicity Huffman dæmd í fjórtán daga fangelsi vegna háskólasvikamyllu
Huffman bað um að fá að afplána dóm sinn í fangelsi nærri fjölskyldu sinni en henni var gefinn frestur til 25. október til þess að hefja afplánun. Þá þarf hún einnig að skila af sér 250 tímum í samfélagsþjónustu.
Leikkonan játaði sekt sína í maímánuði og gekkst við því að hafa greitt fimmtán þúsund Bandaríkjadali í þjónustu til þess að koma dóttur sinni inn í háskóla. Upphæðin samsvarar tæplega tveimur milljón íslenskra króna á núverandi gengi.
Ástæðuna segir hún vera ótta um að slæmar einkunnir dóttur hennar myndu koma í veg fyrir að hún kæmist inn í draumaskólann. Við dómsuppkvaðningu í september sagðist leikkonan iðrast gjörða sinna. „Ég var hrædd, ég var vitlaus og ég gerði rangt. Ég skammast mín verulega fyrir það sem ég hef gert.“
Saksóknarar í Boston hafa ákært að minnsta kosti fimmtíu manns í tengslum við svikular innritanir á nemendum í háskóla á borð við Yale, Georgetown, Stanford og UCLA. Í ákærunum er því haldið fram að svikamyllunni hafi verið ætlað að hjálpa auðugum Bandaríkjamönnum að greiða fyrir því að börnin þeirra kæmust inn í bestu skólana.
Í yfirlýsingu sem Huffman sendi frá sér í apríl sagðist hún hafa svikið dóttur sína með athæfi sínu. Dóttir hennar hefði ekki haft minnstu hugmynd um baktjaldamakkið.
Tengdar fréttir

Felicity Huffman dæmd í fjórtán daga fangelsi vegna háskólasvikamyllu
Bandaríska leikkonan Felicity Huffman, sem þekkt er fyrir að leika í þáttunum Aðþrengdum eiginkonum, var í dag dæmd í fjórtán daga fangelsi vegna þátttöku sinnar í víðfrægri háskólasvikamyllu.

Dómarabréf til stuðnings Huffman varpa nýju ljósi á illdeilur Aðþrengdu eiginkvennanna
Bandaríska leikkonan Eva Longoria, sem þekktust er fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Aðþrengdum eiginkonum (e. Desperate Housewives), segir Felicity Huffman, meðleikkonu sína í þáttunum, hafa tekið upp hanskann fyrir sig á tökustað þáttanna, þar sem eineltisseggur úr leikaraliðinu hafi ráðið ríkjum.

Felicity Huffman játar sök fyrir dómi
Bandaríska leikkonan Felicity Huffman, sem þekkt er fyrir að leika í þáttunum Aðþrengdum eiginkonum, mun í dag játa sig seka í hinni svokölluðu háskólasvikamyllu en hún er ákærð fyrir að hafa greitt 15.000 Bandaríkjadali fyrir að láta leiðrétta á laun svör dóttur sinnar á inntökuprófi til að auka líkurnar á því að hún kæmist inn í þann háskóla sem henni þætti ákjósanlegastur.