Innlent

Ekki lengur þörf á að sjóða vatn úr Grá­brókar­hrauni

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Borgarnesi. Bólið þjónar Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði.
Frá Borgarnesi. Bólið þjónar Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði. Vísir/egill
Veitur hafa aflétt tilmælum til viðskiptavina vatnsveitu fyrirtækisins úr Grábrókarhrauni um suðu neysluvatns. Þetta er gert í samráði við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands.

Í tilkynningu frá Veitum segir að sýni tekin úr vatnsbólinu sjálfu og víðar úr veitukerfinu síðustu daga hafi staðist gæðakröfur. Hafi verið settur upp lýsingarbúnaður við vatnsbólið sem tryggi enn frekar öryggi vatnsins. Bólið þjónar Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði.

Grunur vaknaði fyrst fimmtudaginn 3. október um gerlamengun í vatnsbólinu í Grábrókarhrauni.

„Þá þegar ráðlögðu Veitur íbúum að sjóða neysluvatn. Daginn eftir var þeim tilmælum aflétt þar sem nýjustu sýni úr vatnsbólinu stóðust kröfur. Engu að síður ákváðu Veitur að hefja daglega sýnatöku úr vatnsbólinu og að setja þar upp lýsingarbúnað. Lýsing á vatni með útfjólubláu ljósi er mjög áhrifarík leið til að hreinsa drykkjarvatn og gera það öruggt til neyslu án þess að hafa önnur áhrif á vatnið eða gæði þess.

Viku síðar, fimmtudaginn 10. október, vaknaði aftur grunur um að gerlar væru í vatninu. Þá gáfu Veitur og Heilbrigðiseftirlit Vesturlands út tilmæli um suðu neysluvatns frá vatnsbólinu. Í ljósi þess hversu stutt var frá fyrri grun og að stutt væri í að lýsingarbúnaður væri orðinn virkur, var ákveðið í öryggisskyni að láta tilmælin ná til dagsins í dag, miðvikudagsins 16. október,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×