Erlent

Demókratar tókust á um heilbrigðismál

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Frambjóðendur í prófkjöri Demókrata fyrir bandarísku forsetakosningarnar tókust á í kappræðum í nótt. Heilbrigðismálin voru í fyrirrúmi eins og í fyrri kappræðum.

Demókratar hafa skipt sér í tvær fylkingar í heilbrigðismálum. Frambjóðendur á borð við Joe Biden, fyrrverandi varaforseta, vilja auka aðkomu ríkisins að sjúkratryggingum og gera öllum kleyft að tryggja sig hjá hinu opinbera.
Öldungadeildarþingmennirnir Bernie Sanders og Elizabeth Warren, sem mælast með næst- og þriðja mest fylgi á eftir Biden, vilja hins vegar að sjúkratryggingar verði eingöngu á vegum hins opinbera.

Biden skaut á Sanders og Warren fyrir hugmyndir sínar. Sagði að áætlanir þeirra myndu kosta Bandaríkin þrjátíu billjónir dala á tíu ára tímabili. Spurði hann því hvaðan peningarnir ættu að koma.

Sanders sagðist aftur á móti þreyttur á því að sjá fólk koma kerfinu til varnar. „Þetta er bilað kerfi og grimmilegt. 87 milljónir eru án tryggingar, 30 þúsund deyja ár hvert og 500 þúsund verða gjaldþrota. Og hvers vegna? Vegna þess þau fengu krabbamein.“

Warren vék sér undan spurningum um hvort hennar stefna fæli í sér skattahækkanir. Sagðist þó lofa því að undirrita engin frumvörp sem myndu auka útgjöld millistéttarfjölskyldna.

Sanders var einnig spurður um heilsu sína, eftir að hafa fengið hjartaáfall fyrr í mánuðinum.  „Við verðum í mikilli kosningabaráttu um allt land. Þannig mun ég fullvissa almenning um að ég er heill heilsu.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.