Innlent

Sinnulítil gagnvart nýsköpunarfyrirtækjum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Tillagan er eitt af forgangsmálum þingflokksins þennan þingveturinn en frambjóðendur Samfylkingarinnar töluðu mikið um eflingu smærri fyrirtækja í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.
Tillagan er eitt af forgangsmálum þingflokksins þennan þingveturinn en frambjóðendur Samfylkingarinnar töluðu mikið um eflingu smærri fyrirtækja í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. visir/vilhelm
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, mælti á Alþingi í dag fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja. Tillögunni, sem er í sjö liðum, er ætlað að styðja sérstaklega við rekstrarumhverfi smærri fyrirtæki og efla nýsköpun.

„Við erum alltof sinnulítil gagnvart framsæknum nýsköpunarfyrirtækjum. Þetta eru gjarnan fyrirtæki sem eru drifin áfram af hugviti og þurfa að verða leiðandi í lífskjarasókn landsins til framtíðar. En við búum þeim alltof erfið lífsskilyrði,“ segir Logi.

Tillagan er eitt af forgangsmálum þingflokksins þennan þingveturinn en frambjóðendur Samfylkingarinnar töluðu mikið um eflingu smærri fyrirtækja í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

„Oft eru ákvarðanir teknar hérna inni er varða fyrirtæki hugsaðar út frá hagsmunum stærri fyrirtækja, jafnvel allra stærstu. Hér eru daglega viðfangsefni sem lúta að sértækum verkefnum, sértækum fyrirtækjum, stórum atvinnugreinum en aftur á móti virðist vera allt of lítið hugsað út frá hinu smáa. Þær aðgerðir sem flutningsmenn eru að leggja áherslu á hér gagnast auðvitað líka meðalstórum og stórum fyrirtækjum en með þessari tilraun er verið að reyna að hugsa út frá þörfum smærri fyrirtækja því þau eiga sér, virðist vera, færri málsvara hér inni á þingi,“ segir Logi á Alþingi.

Í tillögunni er meðal annars lagt til að lækka tryggingagjald fyrir smærri fyrirtæki og auka ívilnanir, að þak á endurgreiðslu vegna nýsköpunar verði afnumið og að breytingar verði gerðar á skattalögum til að skapa hvata til fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og að auka áherslu á iðn- og tæknimenntun, skapandi menntun og endurmenntun.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×