Innlent

Maðurinn sem leitað var að við Glym er fundinn

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Glymur er hæsti foss Íslands.
Glymur er hæsti foss Íslands. Vísir/Tryggvi
Björgunarsveitin á Akranesi fann á ellefta tímanum í kvöld mann sem leitað var að við fossinn Glym í Hvalfirði. Erlendur göngumaður var villtur á gönguleiðinni við fossinn og fóru björgunarsveitarhópar fótgangandi að leita hans. 

„Maðurinn fannst tuttugu mínútur fyrir ellefu. Þetta gekk mjög vel,“ sagði Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við fréttastofu í kvöld.

„Eftir að tilkynningin barst til Neyðarlínunnar virtist ekki nást sambandi við hann. Það gekk því erfiðlega að reyna að staðsetja hann frekar.“ Maðurinn gat gefið til kynna hvoru megin við fossinn hann var, en hann rataði ekki niður. Davíð segir að gott veður hafi verið á svæðinu.

„Fljótlega eftir að þau voru komin sáu þau ljós í hlíðinni og fóru beint þangað og fundu manninn. Það amaði ekkert að honum, hann var ekki slasaður og svona frekar brattur. Hann hafði bara tapað leiðinni í myrkrinu og hafði ekki ratað niður aftur. Björgunarsveitarfólkið fylgdi honum niður og komu honum á bílastæðið þar sem bíllinn hans var. Þar skildu leiðir og allir héldu til síns heima.“

Útkallið barst klukkan 21:27 í kvöld, eftir að tilkynning barst Neyðarlínunni frá göngumanninum. Fyrsti hópur björgunarfólks var kominn á svæðið um klukkan tíu. Fossinn Glymur er í Botnsdal, innst í Hvalfirði. Glymur er hæsti foss Íslands en fallhæð hans er 198 metrar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×