Níu flugvélar frá ýmsum flugfélögum sátu fastar á Keflavíkurflugvelli vegna veðurs nú um tíuleytið, samkvæmt upplýsingum frá Isavia. Þá hefur flugferðum einnig verið frestað í morgun vegna vindhraða í Keflavík.
Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia segir í samtali við Vísi að vindhraði á flugvellinum sé kominn yfir 50 hnúta. Þegar svo ber undir eru landgöngubrýr teknar úr notkun af öryggisástæðum. Þær verður ekki hægt að nota á ný fyrr en vind lægir, sem Guðjón er ekki viss um hvenær verður.
Á meðan veðrið er enn slæmt sitja farþegar í a.m.k. átta flugvélum nú fastir við flugstöðvarbygginguna. Um er að ræða flugvélar sem komið hafa inn til lendingar í morgun.
Á heimasíðu Isavia má jafnframt sjá að ferðum frá Keflavíkurflugvelli, allt frá klukkan 8:30 í morgun, hefur verið frestað til a.m.k. 11:40.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mun vind lægja töluvert á Reykjanesi fljótlega eftir hádegi og því má gera ráð fyrir að einhver hreyfing komist á flug til og frá Keflavík um það leyti. Áfram verður þó allhvass vindur á svæðinu fram eftir degi.
Uppfært klukkan 12:21:
Landgöngubrýr á Keflavíkurflugvelli voru teknar aftur í notkun um klukkan hálf 12, samkvæmt upplýsingum frá Isavia. Þá er búið að hleypa öllum frá borði úr flugvélunum sem biðu við flugstöðvarbygginguna í morgun og verið að koma öllu á flugvellinum í samt horf.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Flugvélar sátu fastar í Keflavík vegna veðurs
