Innlent

Tölvuþrjótar sviku nærri 900 milljónir út úr móðurfélagi Rúmfatalagersins

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Erlendir tölvuþrjótar sviku nærri níu hundruð milljónir út úr fyrirtækinu Lagerinn Iceland á síðasta ári en fyrirtækið á og rekur meðal annars Rúmfatalagerinn. Þetta er eitt stærsta mál sinnar tegundar sem komið hefur upp á Íslandi.Samkvæmt heimildum fréttastofu kom málið upp í ágúst á síðasta ári og var um þaulskipulagðan glæp að ræða. Málinu svipar mjög til máls sem nýlega kom upp þegar tölvuþrjótar náðu að svíkja út úr HS Orku um fjögur hundruð milljónir króna. Málið er til rannsóknar hjá Héraðssaksóknara en í samtali við fréttastofu sagðist Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari ekkert geta tjáð sig um það. Unnið væri að rannsókn málsins í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld. Samkvæmt heimildum fréttastofu teygir málið sig til Asíu, meðal annars Kína og Hong Kong. Svo virðist sem að tölvuþrjótarnir hafi komist inn í tölvupóstsamskipti og séð þannig til þess að nærri níu hundruð milljónir voru lagðar inn á reikninga sem þeir höfðu aðgang að í stað þess að fara á réttan stað. Þórarinn Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri Lager Iceland, vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins í dag. Lager Iceland á og rekur meðal annars Rúmfatalagerinn og verslunina Ilva. Þórarinn var ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækisins eftir að málið kom upp, eða í apríl á þessu ári.Hann fullyrti í samtali við fréttastofu að nánast allir peningarnir hafi náðst til baka. Það hafi verið gert með aðstoð lögreglu og banka. Hann vildi ekkert tjá sig um það hvort að einhverjar uppsagnir hafi átt sér stað í tengslum við málið en að ferlum og vinnulagi innan fyrirtækisins hafi verið breytt til að reyna að tryggja að málið geti ekki endurtekið sig.Ítarlega verður fjallað um málið í kvöldfréttatíma Stöðvar 2. 


Tengdar fréttir

Hundruðum milljóna stolið af HS Orku

Tölvuþrjótar brutust inn í tölvukerfi HS Orku og sviku út greiðslu sem nemur á fjórða hundrað milljóna. Væntingar um að hægt sé að endurheimta stóran hluta.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.