Fótbolti

Arnór lagði upp mark í mikilvægum sigri og CSKA hafði betur í Íslendingaslag

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnór ásamt þjálfara sínum Uwe Rösler.
Arnór ásamt þjálfara sínum Uwe Rösler. vísir/getty
Arnór Ingvi Traustason lagði upp þriðja mark Malmö er liðið vann 3-0 sigur á Elfsborg á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni.

Arnór kom inn sem varamaður á 63. mínútu og lagði upp þriðja markið sex mínútum fyrir leikslok en Malmö er í öðru sætinu, þremur stigum á eftir Djurgården.

Arnór Sigurðsson spilaði fyrstu 84 mínúturnar er CSKA Moskva vann 3-2 sigur á Krasnodar í rússlandi en Jón Guðni Fjóluson lék allan leikinn fyrir Krasnodar.

Eftir sigurinn er CSKA í öðru sæti deildarinnar með 22 stig, stigi á eftir Zenit frá Pétursborg, en Krasnodar er í fjórða sætinu með 20 stig.

Sverrir Ingi Ingason var ónotaður varamaður er PAOK gerði 2-2 jafntefli við Aris á heimavelli í Grikklandi. PAOK er með tíu stig eftir fjórar umferðir og er í 2. sætinu.

Mikael Anderson spilaði fyrsta klukkutímann er Midtjylland gerði markalaust jafntefli við FCK í toppslag í danska boltanum en eftir jafnteflið er Midtjylland áfram á toppi deildarinnar.

Daníel Hafsteinsson var ónotaður varamaður er Helsingborgs vann 2-1 sigur á Eskilstuna í Svíþjóð. Helsingborgs er eftir sigurinn í tíunda sætinu.

Samúel Kári Friðjónsson hafði betur gegn Matthíasi Vilhjálmssyni í Íslendingaslag í Noregi er Viking vann 4-0 sigur á Vålerenga. Viking í fimmta sætinu en Vålerenga því níunda.

Arnór Smárason spilaði svo allan leikinn fyrir Lilleström sem gerði 1-1 jafntefli við Kristiansund á heimavelli í sömu deild. Lilleström í 10. sætinu.

Íslendingaliðið Álasund er svo skrefi nær sæti í úrvalsdeildinni eftir 3-1 sigur á Notodden. Davíð kristján Ólafsson spilaði allan leikinn fyrir Álasund en Hólmbert Aron Friðjónsson síðustu þrettán mínúturnar.

Aron Elís Þrándarson sat allan tímann á bekknum en Álasund er með fjórtán stiga forskot á Start er átján stig eru eftir í pottinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×