Innlent

Segir ríkið hafna nútímavísindum til þess að „fara sem verst með sakborningana“

Sylvía Hall skrifar
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar.
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar. Fréttablaðið/Eyþór
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar sem stefnt hefur ríkinu til greiðslu bóta með dráttarvöxtum upp á 1,3 milljarða króna, segir ríkislögmann ekki vera sjálfstæða stofnun. Ríkisstjórnin hljóti að leggja lögmanninum línurnar í málinu en að sögn Ragnars gengur ríkislögmaður fram með fáheyrðum ákafa í að sýkna ríkið af öllum bótakröfum.

Ragnar var gestur Heimis Más Péturssonar í þjóðmálaþættinum Víglínan í dag. Hann segir ríkið hafa viðurkennt bótarétt sakborningana í málinu með því að koma á fót sáttanefnd.

Samkomulag um bætur tókst ekki við sakborninga og ættingja við sáttanefnd sem forsætisráðherra skipaði en skipaður ríkislögmaður í málinu hefur lagt fram greinargerð í héraðsdómi. Í greinargerðinni er aðallega stuðst við málatilbúnað í sakamálinu frá 1980 sem Ragnar telur ekki standast þar sem fyrri dómur er fallinn úr gildi eftir að málið var þingfest á ný í Hæstarétti á síðasta ári.

Hann segir það vera ljóst að ríkislögmaður ætli sér að leita allra tiltæka leiða til þess ríkið verði sýknað og hafni meðal annars niðurstöðum viðamikilla rannsókna um áhrif fangelsisvistar á saklaust fólk í greinargerð sinni.

„Ríkið fer þá leið að hafna öllum nútímavísindum. Það hafnar til að mynda viðteknum niðurstöðum réttarsálfræði nútímans. Ríkið hafnar líka rannsóknum sem fram hafa farið annars staðar í heiminum á afleiðingum fangelsisvistar á fólk sem er saklaust dæmt og seinna sýknað og samkvæmt rannsóknum nær sér aldrei til æviloka. Þessu er öllu hafnað. Öll nútímaþekking skiptir íslenska ríkið engu máli, slík er ákefðin við að reyna að fara sem verst með sakborningana í þessu máli,“ segir Ragnar.

Guðjón Skarphéðinsson hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu.Vísir

Segir forsætisráðherra fara með rangt mál 

Ragnar segir málið vera lögum samkvæmt á ábyrgð forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar en í fjórtándu grein stjórnarskrárinnar segir að ráðherrar beri ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum. Ríkislögmaður sé ekki sjálfstæð stofnun og málið sé því á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, það sé ekki undir ríkislögmanni komið að setja fram kröfur líkt og forsætisráðherra hefur haldið fram.

„Þetta er rangt, umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um þetta að minnsta kosti tvívegis. Hann hefur gagnrýnt mjög þá sem flytja mál fyrir ríkið fyrir það hvernig þeir koma fram gagnvart borgurunum. Þeir halda að þeir eigi að tjalda öllu til að koma í veg fyrir að borgararnir nái rétti sínum gegn ríkinu,“ segir Ragnar og segir þá lögmenn sem reka mál fyrir ríkið oftar en ekki ganga harðar fram en aðrir lögmenn.

„Ég hef enga lögmenn séð ganga jafn langt og þá sem vinna fyrir ríkið að þessu leyti.“

Sjá einnig: Svimaði við lestur greinargerðar ríkislögmanns



Hann segir það vera pólitíska ákvörðun ef ríkisstjórnin ætlar að breyta um stefnu í málinu. Það sé ekki ákvörðun ríkislögmanns.

„Þetta er afar viðkvæmt mál og stórt og hlýtur að verða tekin ákvörðun um það á efstu stigum, sérstaklega ef ríkisstjórnin ákveður að breyta um stefnu og biðst fyrirgefningar, viðurkennir mistök og segir svo allt í einu: Við ætlum ekki að bæta neitt vegna þess að þetta er ekki okkur að kenna, þetta er allt saman fólkinu að kenna sem lenti í fangelsi. Þá þyrfti að rökstyðja það sérstaklega og það er pólitísk ákvörðun, á því ber ríkisstjórnin fullkomlega ábyrgð en ekki Andri Árnason, sem hlýtur auðvitað fyrirmælum ríkisstjórnarinnar í þessu máli.“

Getur ekki leikið sér að hagsmunum umbjóðenda sinna 

Líkt og áður sagði hefur Ragnar stefnt ríkinu til greiðslu bóta með dráttarvöxtum upp á 1,3 milljarða króna. Hann segir kröfuna vera háa en hann hafi einungis eitt dómafordæmi til viðmiðunar og það sé skylda hans sem lögmaður að berjast fyrir rétti skjólstæðinga sinna.

„Hún er vissulega há. Ég efast ekkert um það. En hvað á lögmaður að gera sem hefur aðeins eitt fordæmi um samskonar dóm út af samskonar athæfi í sama fangelsi á sama ári? Átti lögmaðurinn að segja við skjólstæðing sinn: „Við skulum ekki taka mark á þessum dómi Hæstaréttar, hann er alltof hagstæður sakborningum og þér þar með, við skulum fara einhverja aðra leið og minnka kröfurnar“.

Hann segir það hafa verið nauðsynlegt að gera kröfur í samræmi við þá niðurstöðu sem Hæstiréttur komst að í máli hinna svonefndu „Klúbbsmanna“.

„Þetta varð ég að miða við. Ég hef skyldu sem lögmaður, ég get ekki leikið mér að hagsmunum umbjóðenda minna með því að skera þá niður.“


Tengdar fréttir

Svimaði við lestur greinargerðar ríkislögmanns

Lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar segir ríkið ekki fylgja reglum hins siðaða samfélags í málsvörn sinni gagnvart kröfum Guðjóns um bætur vegna ólöglegrar frelsissviptingar hans í Geirfinnsmálinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×