Erlent

Munu þurfa að losa geisla­virkt vatn frá Fukus­hima út í Kyrra­hafið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá kjarnorkuverinu í Fukushima.
Frá kjarnorkuverinu í Fukushima. vísir/getty

Yoshiaki Harada, umhverfisráðherra Japans, segir að umsjónaraðili kjarnorkuversins í Fukushima, sem eyðilagðist í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgju árið 2011, muni innan þriggja ára þurfa að losa geislavirkt vatn út í Kyrrahafið.

Ástæðan er sú að ekki verður nægilegt rými til þess að geyma mengaða vatnið en meira en milljón tonn af vatni eru nú geymd í tönkum við kjarnorkuverið.

Það er Tokyo Electric Power (Tepco) sem sér um kjarnorkuverið í Fukushima. Fyrirtækið hefur átt í vandræðum með grunnvatn á svæðinu sem mengast þegar það kemst í snertingu við vatn sem er notað til þess að koma í veg fyrir að kjarnaofnar versins bráðni.

Mengað vatnið er geymt í um það bil þúsund tönkum en Tepco hefur nú varað við því að sumarið 2022 muni það komi ekki meira vatni fyrir í tönkunum.

„Eini möguleikinn er að veita vatninu út í sjó og þynna það út. Ríkisstjórnin mun koma saman og ræða þetta,“ sagði japanski umhverfisráðherrann við fjölmiðla í dag.

Engin endanleg ákvörðun verður tekin um hvað eigi að gera við vatnið fyrr en stjórnvöld hafa ráðfært sig við hóp sérfræðinga.

Að því er fram kemur á vef Guardian er viðbúið að það muni reita sjómenn við Fukushima til reiði ef ákveðið verður að veita geislavirku vatninu út í sjó, enda hafi þeir unnið baki brotnu að því að endurreisa sjávarútveginn á svæðinu síðan kjarnorkuslysið varð árið 2011.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.