Fótbolti

Ronaldo skorað gegn 40 þjóðum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldo hefur skorað 93 mörk í 160 landsleikjum fyrir Portúgal.
Ronaldo hefur skorað 93 mörk í 160 landsleikjum fyrir Portúgal. vísir/getty

Cristiano Ronaldo skoraði fernu þegar Portúgal vann 1-5 sigur á Litháen í undankeppni EM 2020 í gær.

Þetta var áttunda þrenna Ronaldos fyrir portúgalska landsliðið og 54. þrennan á ferlinum fyrir lands- og félagslið. Þetta er önnur landsliðsþrenna Ronaldos á árinu. Hann skoraði öll þrjú mörk Portúgals í 3-1 sigrinum á Sviss í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar.


Litháen er tólfta landið þar sem Ronaldo skorar þrennu. Ronaldo hefur einnig skorað þrennu í Portúgal, Ítalíu, Rússlandi, Spáni, Japan, Armeníu, Svíþjóð, Tyrklandi, Norður-Írlandi, Hollandi og Englandi.

Ronaldo hefur alls skorað 93 mörk fyrir portúgalska landsliðið. Hann er næstmarkahæsti landsliðsmaður sögunnar á eftir Írananum Ali Daei. Hann skoraði 109 mörk í 149 landsleikjum á árunum 1992-2006.

Ronaldo hefur núna skorað gegn 40 mismunandi þjóðum á landsliðsferlinum. Hann hefur skorað flest mörk gegn Armeníu, Svíþjóð, Lettlandi og Andorra, eða fimm mörk gegn hverri þjóð.

Hann hefur alls skorað átta mörk fyrir Portúgal á þessu ári. Metið hans er 13 mörk frá 2016.

Ronaldo hefur skorað 25 mörk í undankeppni EM, 30 mörk í undankeppni HM, 17 í vináttulandsleikjum, níu á EM, sjö á HM, þrjú í Þjóðadeildinni og tvö í Álfukeppninni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.