Innlent

Kjaraviðræður þokast hægt í rétta átt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Mynd/BSRB
Kjaraviðræður BSRB við viðsemjendur hafa haldið áfram undanfarið og „heldur þokast í rétta átt þó hægt hafi gengið,“ að því er segir í tilkynningu um gang viðræðnanna frá BSRB.

Enn á þó eftir að leysa úr stórum ágreiningsmálum á borð við styttingu vinnuvikunnar og jöfnun launa milli markaða og því ljóst að kjarasamningar nást ekki fyrir 15. september eins og stefnt var að.

Kjarasamningar flestra aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá því í byrjun apríl og viðræður við viðsemjendur staðið yfir síðan. BSRB fer með samningsumboð í ákveðnum málaflokkum en aðildarfélög bandalagsins semja hvert fyrir sig um laun og ýmis sérmál. Viðsemjendur eru þrír; ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg.

„Stærsta áherslumál BSRB í kjaraviðræðunum er stytting vinnuvikunar. BSRB vill stytta vinnuvikuna í 35 stundir og enn meira hjá vaktavinnuhópum. Þær áherslur eru í samræmi við afar jákvæðar niðurstöður úr tilraunaverkefnum sem bandalagið stóð að ásamt Reykjavíkurborg annars vegar og ríkinu hins vegar,“ segir í tilkynningu BSRB.

Vonast er til að hægt verði að ná saman um málið eftir að hópur sem stofnaður var utan um mögulegar útfærslur á styttingu vinnuvikunnar skilar af sér niðurstöðu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×