Fótbolti

Ný ofurstjarna að verða til í Barcelona?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sjá um sóknarleikinn í fjarveru Messi, sem er meiddur.
Sjá um sóknarleikinn í fjarveru Messi, sem er meiddur. vísir/getty
Ansu Fati er nafn sem fæstir knattspyrnuáhugamenn könnuðust við fyrir nokkrum vikum en þessi sextán ára gamli piltur er að slá í gegn á stærsta sviði knattspyrnunnar um þessar mundir.

Fati skoraði á 2.mínútu og lagði upp mark fyrir Frenkie de Jong á 7.mínútu þegar Barcelona vann 5-2 sigur á Valencia í spænsku úrvalsdeildinni í gær. 

Þetta var ekki fyrsta mark kappans því hann skoraði í 2-2 jafntefli gegn Osasuna á dögunum og varð þá þriðji yngsti markaskorari spænsku úrvalsdeildarinnar frá upphafi, 16 ára og 304 daga gamall.

„Fati er leikmaður sem býr yfir einhverju sérstöku. Hann er sóknarmaður sem er mun þroskaðri en aldur hans segir til um. Hann æfir eins og hann spilar,“ segir Ernesto Valverde, stjóri Barcelona.

Ansu Fati er yngsti leikmaður til að skora og leggja upp mark í sama leiknum í spænsku úrvalsdeildinni en Valverde segir mikilvægt að hjálpa stráknum að venjast þeirri staðreynd að vera kominn í stórt hlutverk hjá einu stærsta íþróttafélagi heims.

„Þetta var ótrúleg byrjun fyrir hann; að skora og leggja upp strax en við verðum að gefa honum tíma. Hann er enn að þroskast og hann þarf að höndla þessar aðstæður sem eru langt frá því að vera eðlilegar,“ segir Valverde.

Fati fæddist í Gíneu-Bissá 31.október 2002 en fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Spánar, sex ára gamall. Hann lék með yngri flokkum Sevilla frá 2010-2012 en færði sig þá um set til Katalóníu og fór upp í gegnum hina þekktu La Masia akademíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×