Innlent

Segir innflutning á kjöti átakanlegan í landi sauðkindarinnar

Stefán Ó. Jónsson og Eiður Þór Árnason skrifa
Grípa verði til aðgerða til að stemma stigu við þróuninni, og útilokar Guðrún ekki að þær þurfi að vera af róttækari gerðinni.
Grípa verði til aðgerða til að stemma stigu við þróuninni, og útilokar Guðrún ekki að þær þurfi að vera af róttækari gerðinni. Fréttablaðið/Anton
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, kallar eftir því að auðlindir jarðarinnar verði nýttar með ábyrgari hætti, enda sé náttúran komin að þolmörkum. Það muni þýða breyttar neysluvenjur og segir formaðurinn í því samhengi ótækt að Íslendingar flytji matvörur um langan veg.Ábyrgð atvinnulífsins í loftslagsmálum var til umræðu á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Guðrún telur að lausnirnar liggi hjá atvinnurekendum og hún hvetur þá til að taka forystu í loftslagsmálum, enda sé vandinn mikill.Séum að komast að þolmörkum

„Reyndin hefur sýnt okkur það að við erum að komast að þolmörkum í nýtingu á auðlindum jarðar, og við verðum að taka það til okkar og nýta hana með ábyrgari hætti. Það er sagan að segja okkur núna, annars værum við ekki að horfa á þessa miklu hlýnun jarðar,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir.Grípa verði til aðgerða til að stemma stigu við þróuninni, og útilokar Guðrún ekki að þær þurfi að vera af róttækari gerðinni.„Við þurfum líka örugglega harkaleg inngrip á mörgum sviðum til þess að bregðast við loftslagsvánni núna,“ bætti hún við.Alþjóðaverslun var nefnd í því samhengi, með öllum þeim mengandi vöruflutningum sem henni fylgir. Þrátt fyrir að Guðrún segist vera hlynnt alþjóðaviðskiptasamningnum, eins og aðild Íslendinga að Evrópska efnahagssvæðinu, segir hún miður að innflutningur ýmissa vara hafi aukist á kostnað innlendrar framleiðslu.

Sorglegt að innflutningur sé að aukast

„Við getum vitaskuld ræktað miklu meira grænmeti en við erum að gera og mér þykir sorglegt til þess að vita að innflutningur á grænmeti er að aukast stórkostlega þegar við ættum í rauninni að vera auka innlenda framleiðslu.“Þetta eigi einnig við um innflutning á kjöti.„Mér hefur þótt það átakanlegt að hér séu veitingastaðir og verslanir að selja kjöt frá Nýja-Sjálandi, lambakjöt í landi sauðkindarinnar. Við eigum frábært lambakjöt og ég ætla ekkert að draga í efa gæði lambakjöts frá Nýja-Sjálandi. Mér persónulega finnst bara eitthvað rangt við það að við séum að flytja inn kjöt frá einu fjarlægasta landi sem við getum mögulega fundið, mér finnst eitthvað rangt við það,“ sagði Guðrún jafnframt.Hér fyrir neðan má hlusta á viðtalið við Guðrúnu Hafsteinsdóttur í heild sinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.