Innlent

Ráðherra fundar með Haraldi um stöðuna í dag

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. Mynd/Einar Ólason
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kemur Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri á fund Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í dag. Þar verður rætt um ástandið innan lögreglunnar og það sem fram hefur komið í fréttum undanfarna daga.

Gríðarleg ólga er innan lögreglunnar eftir að viðtal við Harald birtist í Morgunblaðinu á laugardag. Í viðtalinu talar hann meðal annars um „rógsherferð“ á hendur sér og að reynt sé að koma honum frá með „svívirðilegum aðferðum“.

Lögreglustjórar munu einnig funda um málið í dag. Fréttablaðið ræddi við lögreglustjóra sem lýsti yfir óánægju með Harald eftir viðtalið og telur líklegt að í kjölfarið á fundinum verði rætt við ráðherra.

Lögreglustjórinn, sem vill ekki láta nafns síns getið, segist ekkert vita hvað Haraldur sé að tala um í þessu viðtali og að aðrir lögreglustjórar viti það heldur ekki. Hann segir að aldrei hafi verið ráðist á Harald, heldur hafi aðeins verið reynt að fá úrbætur á málum lögreglunnar. Það sé hlutverk ríkislögreglustjóra samkvæmt lögum og vel útlistað. Því séð eðlilegt að lögreglumenn, sem notendur, hafi skoðun á því. Á hann þá meðal annars við bíla- og fatnaðarmál sem mikið hafa verið í deiglunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×