Innlent

Fundi umhverfis- og samgöngunefndar frestað í skyndi vegna óvæntrar uppástungu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá fundi umhverfis- og samgöngunefndar í febrúar. Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins er lengst til vinstri og samflokksmaður hans Karl Gauti Hjaltason er lengst til hægri.
Frá fundi umhverfis- og samgöngunefndar í febrúar. Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins er lengst til vinstri og samflokksmaður hans Karl Gauti Hjaltason er lengst til hægri. Vísir/vilhelm

Fundi í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis var frestað eftir að hafa staðið yfir í skamma stund í morgun. Kjósa átti nýjan formann nefndarinnar í dag, sem samkomulag er um að verði Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins. Fundinum var hins vegar frestað í skyndi eftir að áheyrnarfulltrúi Pírata í nefndinni stakk upp á Karli Gauta Hjaltasyni samflokksmanni Bergþórs í formannssætið. RÚV greindi fyrst frá.

Formannsstaða Bergþórs í nefndinni hefur verið afar umdeild. Eftir að Klausturmálið svokallaða kom upp sagði Bergþór tímabundið af sér formennsku. Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður nefndarinnar tók við formennskunni.

Sjá einnig: Umhverfis- og samgöngunefnd óstarfhæf vegna ósamkomulags um formann

Karl Gauti segir í samtali við Vísi að fundinum í morgun hafi tvívegis verið frestað, í fyrra skiptið eftir að fulltrúi Viðreisnar í umhverfis og samgöngunefnd bar formlega upp tillögu Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata og áheyrnarfulltrúa í nefndinni, um að Karl Gauti tæki við formennsku í stað Bergþórs.

Karl Gauti segir að uppástungan hafi komið flatt upp á sig.

„Ég hafði ekki einu sinni tíma til að hafna þessu. Ég mun hafna þessu. Ég er ekki á leiðinni að vera formaður nefndarinnar. Miðflokkurinn hefur kandídat í þetta.“

Jón Gunnarsson formaður nefndarinnar frestaði fundinum eftir að tillaga Björns Levís var borin upp. Fundurinn var settur aftur í skamma stund en þá var óskað eftir því að meirihlutinn kæmi saman á fundi vegna málsins. Fundi umhverfis- og samgöngunefndar var þá slitið.

Karl Gauti kveðst ekki viss um næstu skref. Hann ítrekar þó að samkvæmt samkomulagi eigi Miðflokkurinn tilkall til formennsku í nefndinni.

„Nú er þetta meirihlutinn sem fundar um þetta mál þannig að ég hef ekki hugmynd um hvað þeir eru að spá. En minnihlutinn á þessar formennskur, ein formennskan kom í hlut Miðflokksins og þarna er búið að stinga upp á Bergþóri Ólasyni.“


Tengdar fréttir

Formannsdagar Jóns á enda

Þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafa ekki náð samkomulagi um hver gegna eigi formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd. Nái þeir ekki lendingu fer formennska til Vinstri grænna eftir reiknireglu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.