Fótbolti

Brann spyrst fyrir um Rúnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar Kristinsson er á óskalista Brann.
Rúnar Kristinsson er á óskalista Brann. vísir/bára
Fréttablaðið greinir frá því í morgun að norska úrvalsdeildarfélagið Brann hafi áhuga á að klófesta þjálfarann og Íslandsmeistarann Rúnar Kristinsson.

Brann á að hafa spurst fyrir um krafta Rúnars en hann sé þó sé „tregur til þess að stökkva frá borði hjá KR og muni ekki taka við liði erlendis nema að vel ígrunduðu máli,“ eins og segir í fréttinni.

Rúnar stýrði KR til Íslandsmeistaratitils í gær er liðið vann 1-0 sigur á Val og tryggði sér þar með Íslandsmeistaratitil númer 27 í röðinni hjá félaginu.

Þetta er þriðji Íslandsmeistaratitill Rúnars með KR en einnig hefur hann unnið bikarinn í þrígang áður en hann hélt svo út til Lilleström og Lokeren.

Hann snéri svo aftur heim fyrir síðustu leiktíð og tók sér eitt ár í að byggja upp KR-liðið sem varð svo Íslandsmeistari í ár.

Lars Arne Nielsen er þjálfari Brann sem er í 5. sæti norsku úrvalsdeildarinnar, fjórtán stigum á eftir toppliði Molde.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×