Íslenski boltinn

Íslandsmeistararnir mættu þegar KR vann Íslandsmeistaratitil annan daginn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslandsmeistarar KR/KV í 3. flokki með Íslandsmeisturunum í Pepsi Max deild karla.
Íslandsmeistarar KR/KV í 3. flokki með Íslandsmeisturunum í Pepsi Max deild karla. Vísir/Kári
Nýkrýndir Íslandsmeistarar KR í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu mættu til að hvetja 3. flokk KR til dáða í úrslitaleik Íslandsmótsins í gær.Stuðningurinn hafði greinilega góð áhrif á liðið því 3. flokkurinn hjá KR vann öruggan 5-1 sigur á Fjölni í úrslitaleiknum sem fór fram á heimavelli Fjölnismanna.  Fjölnismenn unnu hlutkesti um það hvort lið fengi heimaleikinn en heppnin var ekki með þeim í sjálfum úrslitaleiknum.KR vann því Íslandsmeistaratitla tvö kvöld í röð og það er því gaman á Meistaravöllum þessa dagana.KR vann 3. flokkinn þarna í sautjánda sinn en í fyrsta sinn frá árinu 2014. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn síðan 1950 þar sem KR-ingar verða Íslandsmeistarar í bæði meistaraflokki og 3. flokki.Styrmir Máni Kárason og Birgir Steinn Styrmisson komu KR-ingum í 2-0 með mörkum með tveggja mínútna millibili í upphafi leiks en Daníel Smári Sigurðsson minnkaði muninn fimm mínútum síðar.KR-ingar gerðu svo út um leikinn með tveimur mörkum fyrir hálfleik. Það fyrra skoraði Jóhannes Kristinn Bjarnason úr vítaspyrnu en það síðara Freyr Þrastarson. Birgir Steinn Styrmisson innsiglaði síðan sigurinn með sínu öðru marki í seinni hálfleiknum.KR og KV eru með sameiginlegt lið í 3. flokknum og þjálfarar liðsins eru þeir Sigurður Víðisson og Auðunn Örn Gylfason. Fyrirliði liðsins er markvörðurinn Sigurpáll Sören Ingólfsson.KR/KV vann Stjörnuna 4-3 í undanúrslitaleiknum en þar skoruðu þeir Jökull Tjörvason, Jóhannes Kristinn Bjarnason, Styrmir Máni Kárason og Róbert Logi Jónsson mörkin. Sex leikmenn skoruðu því mörk KR-liðsins í þessum úrslitaleikjum sumarsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.