Erlent

Hóta árásum á víxl

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Samband Írans og Bandaríkjanna virðist versna dag frá degi. Eftir árás síðasta laugardags á olíuvinnslustöð Aramco í Sádi-Arabíu, sem Bandaríkin kenna Írönum um, er allt á suðupunkti og leiðtogar ríkjanna ræða nú opinskátt um innrásir og stríð.

Donald Trump Bandaríkjaforseti var spurður um möguleikann á árásum í nótt. „Það er mjög auðvelt að ráðast inn. Við getum gert það strax, bara eitt símtal, við getum gert það. Og það gæti gerst, en við sjáum hvað setur,“ sagði forsetinn.

Javad Zarif, íranski utanríkisráðherrann, hefur endurtekið hafnað því að Íranar hafi gert árásina. Hútar, uppreisnarsamtök sem berjast gegn hernaðarbandalagi undir forystu Sádi-Araba í Jemen, hafa lýst yfir ábyrgð. Þeir eru bandamenn Írana.

Í samtali við CNN sagðist Zarif ekki hafa neinn áhuga á stríði. Íran myndi hins vegar ekki hika við að grípa til varna og sagði Zarif því að allar árásir Bandaríkjamanna eða Sádi-Araba myndu marka upphaf allsherjarstríðs.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fór frá Sádi-Arabíu í morgun þar sem hann hafði fundað með Mohammed bin Salman krónprins. Þaðan fór hann á fund krónprins Sameinuðu arabísku furstadæmanna, eins nánasta bandamanns Sádi-Araba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×