Umfjöllun: Ísland - Slóvakía 1-0 | Elín Metta bjargaði deginum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elín Metta fagnar sigurmarkinu.
Elín Metta fagnar sigurmarkinu. vísir/vilhelm
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er með fullt hús stiga í undankeppni EM 2021 eftir 1-0 sigur á Slóvakíu á Laugardalsvelli í kvöld. Elín Metta Jensen skoraði eina mark leiksins á 65. mínútu.

Líkt og gegn Ungverjalandi á fimmtudaginn var Elín Metta besti leikmaður íslenska liðsins í kvöld. Fyrri hálfleikurinn var afar bragðdaufur en í þeim seinni hrökk Elín Metta í gang og hafði ógnað nokkrum sinnum áður en hún skoraði markið mikilvæga.

Fyrri hálfleikurinn í kvöld var eiginlega nákvæmlega eins og sá fyrri gegn Ungverjalandi nema mörkin vantaði.

Íslenska liðið byrjaði ágætlega og Svava Rós Guðmundsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir fengu fín færi til að skora. Fanndís var mjög lífleg framan af og átti góðar fyrirgjafir sem nýttust ekki sem skyldi.

Eftir þetta fór allur kraftur úr íslenska liðinu sem hafði ekki hugmyndaflug til að brjóta vörn Slóvakíu á bak aftur. Varnar- og miðjumenn Íslands rúlluðu boltanum sín á milli en illa gekk að koma honum fram völlinn.

Dagný fékk gott færi á 40. mínútu en skallaði framhjá eftir fyrirgjöf Fanndísar. Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleiknum og staðan að honum loknum var markalaus.

Ingibjörg Sigurðardóttir í baráttunni.vísir/vilhelm
Ísland fór rólega af stað í seinni hálfleik en smám færðist meira líf í sóknarleikinn. Eða meira líf í Elínu Mettu sem tók leikinn yfir. Allt sem gerðist í íslensku sókninni fór í gegnum Valskonuna. Hún lét tvisvar sinnum reyna á Mariu Korenčiová sem varði svo vel frá varamanninum Hlín Eiríksdóttur á 64. mínútu.

Aðeins mínútu síðar skoraði Elín Metta eina mark leiksins. Glódís Perla Viggósdóttir átti þá langa sendingu fram á Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur sem skallaði boltann áfram á Elínu Mettu. Hún lék á varnarmann og skoraði með vinstri fótar skoti. Hennar þrettánda landsliðsmark.

Dagný fékk ágætis færi á 76. mínútu en skallaði framhjá. Skömmu síðar fór hún af velli.

Ísland slapp með skrekkinn á 86. mínútu þegar Patrícia Hmírová skaut framhjá úr langbesta færi Slóvakíu. Gestirnir ógnuðu nánast ekkert í leiknum og sóttu af veikum mætti en voru samt nálægt því að stela stigi.

Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og Ísland fagnaði sigri og góðri byrjun á undankeppninni.

Fanndís Friðriksdóttir brunar fram með boltann.vísir/vilhelm
Af hverju vann Ísland?

Elín Metta bjargaði deginum. Svo einfalt er það. Íslenska liðið var miklu sterkara gegn slöku slóvakísku liði en allan brodd vantaði í sóknina.

En upp á sitt einsdæmi byrjaði Elín Metta að ógna og skapa og samherjar hennar fylgdu fordæmi hennar.

Ísland gerði nóg til að vinna en ekki meira og það voru viss vonbrigði að sjá hversu erfitt liðið átti með brjóta Slóvaka á bak aftur.

Hverjar stóðu upp úr?

Elín Metta. Annan leikinn í röð var Valskonan besti leikmaður Íslands. Hefur verið frábær í síðustu landsleikjum og er búin að eigna sér framherjastöðuna í liðinu.

Glódís átti nokkrar hættulegar langar sendingar fram völlinn og ein þeirra skilaði marki. Hallbera Gísladóttir átti sömuleiðis góðan leik í stöðu vinstri bakvarðar og Hlín hleypti lífi í íslensku sóknina.

Markvörðurinn Maria Korenčiová var besti leikmaður Slóvakíu. Hún varði vel og var öflug í vítateignum.

Hvað gekk illa?

Fyrri hálfleikurinn var eins og sá fyrri gegn Ungverjum. Hraðinn í spilinu var lítill og lausnir vantaði í sókninni. Íslenska liðið sýndi samt þolinmæði og náði á endanum að kreista fram mikilvægan sigur.

Hvað gerist næst?

Tveir leikir eru á dagskránni hjá íslenska liðinu í næsta mánuði. Föstudaginn 4. október mætir Íslandi Frakklandi í vináttulandsleik ytra. Þriðjudaginn 8. október er svo komið að þriðja leiknum í undankeppninni, gegn Lettlandi á útivelli.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.