Innlent

Hugverk falla undir eignarrétt

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Jakob Frímann Magnússon stjórnarmaður í STEF og FTT.
Jakob Frímann Magnússon stjórnarmaður í STEF og FTT. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Alþingi samþykkti frumvarp fjármálaráðherra um að breyta skattlagningu á höfundarréttarvörðu efni. Verður höfundarréttur jafngildur eignarrétti og skattlagning færð yfir í fjármagnstekjuskatt.

Jakob Frímann Magnússon, stjórnarmaður í STEF og FTT, fagnar ákvörðuninni. „Þó sumir séu hnípnir yfir því að orkupakkinn hafi verið samþykktur þá geta allir fagnað þessu,“ segir hann. „Þetta eru stórtíðindi og tímabær viðurkenning á eðli hugverka og höfundarréttar. Ísland er fyrsta land í heiminum sem stígur þetta skref.“

Baráttan fyrir breytingunni hófst fyrir um 25 árum hjá tónlistarmönnum. Síðan hafa rithöfundar og fleiri bæst við í baráttuna. „Fyrst töluðum við fyrir daufum eyrum en með tímanum fjölgaði þeim sem sýndu þessu áhuga,“ segir Jakob. „Eftir að málið var tekið á dagskrá hjá Alþingi höfum við í tvígang verið nálægt því að ná þessu í gegn. Nú náðist breytingin inn í ríkisstjórnarsáttmálann og gríðarlegt fagnaðarefni að hún skuli hafa verið efnd.“

Jakob segir þetta mikið hagsmunamál fyrir greinina. „Hinar skapandi greinar eru atvinnugreinar framtíðarinnar og þessi breyting mun bæði halda í atgervisfólkið okkar og fjölga því,“ segir hann. Jakob ræðir breytingarnar í aðsendri grein á síðu 9.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×