Innlent

Lokuðu Sæbraut til að undirbúa miklar framkvæmdir

Birgir Olgeirsson skrifar
Þessar framkvæmdir munu hafa áhrif á þrenn gatnamót við Sæbraut.
Þessar framkvæmdir munu hafa áhrif á þrenn gatnamót við Sæbraut. Vísir/Vilhelm

Sæbrautinni við Höfða var lokað í austur í morgun vegna undirbúnings fyrir framkvæmdir sem borgin er fer í. Um er að ræða þrjú aðskilin verkefni en á meðal þeirra ætlar borgin í endurbætur á umferðarljósum og gönguleiðum á gatnamótum Sæbrautar við Snorrabraut og Katrínartún.

Fékk borgin framkvæmdaleyfi til að undirbúa þessar framkvæmdir á gatnamótum Sæbrautar og Katrínartúns í morgun. Stóð lokunin yfir í fjórar klukkustundir á meðan starfsmenn komu fyrir þungum steypublokkum sem munu standa á svæðinu á meðan framkvæmdirnar eiga sér stað.

Þessar framkvæmdir munu hafa áhrif á þrenn gatnamót við Sæbraut.

Verður Frakkastígur endurgerður á milli Skúlagötu og Lindargötu og gerð nýrrar tengigötu á milli Skúlagötu og Sæbrautar með tilheyrandi beygjurein og rofi í miðeyju Sæbrautar ásamt uppsetningu nýrra umferðarljósa og gatnalýsingar. Færa þarf strætóbiðstöðvar og gera göngustíga. Leggja þarf snjóbræðslu og lagnir veitustofnana. Þegar ný tengigata hefur verið tekin í notkun verður núverandi tengigata á móts við Skúlagötu 20 og það sem henni tilheyrir fjarlægt og tyrft yfir svæðið.

Þá verða umferðarljós og göngu- og hjólaleiðir á gatnamótum Snorrabrautar og Sæbrautar endurnýjaðar ásamt því að lýsing á gönguleiðum verður endurbætt. Auk þess verður beygjurein og framhjáhlaup til austurs frá Snorrabraut inn á Sæbraut aflagt.

Á gatnamótum Katrínartúns og Sæbrautar verður umferðarljós og gönguleiðir endurnýjaðar og lýsing bætt á gönguleiðum.

Með endurnýjun þessara umferðarljósa verða þau samtengd á þremur gatnamótum. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.