Fótbolti

Emil segir stöðuna spes en Birkir var kominn með samningstilboð sem gekk ekki upp

Anton Ingi Leifsson skrifar

Miðjumennir Emil Hallfreðsson og Birkir Bjarnason eru í þeirri óvenjulegu stöðu að vera án félagsliðs þessa stundina.

Emil hefur leikið á Ítalíu í rúm tíu ár og nú síðast með Udinese en hefur sett samningaviðræðurnar á ís til þess að einbeita sér að landsliðinu.

„Þetta er mjög spes staða. Ég hef aldrei lent í þessu áður en þetta fer í reynslubankann,“ sagði Emil í samtali við Hörð Magnússon í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ég hef verið duglegur að æfa og að mínu mati er ég í betra standi en í júní gegn Tyrkjum þar sem ég var nýkominn úr meiðslum.“

„Þá gat ég spilað 90 mínútur og gert ágætis hluti svo ég verð tilbúinn á laugardaginn ef þess er þörf.“

Birkir Bjarnason er í sömu stöðu og Emil en hann komst að starfslokum við Aston Villa nú í sumar. Hann hefur fengið tilboð sem var nærri því búið að ganga frá.

„Ég var kominn með samning á borðið og það var klárt en það gekk ekki upp og það er sérstök staða en ég geri mitt besta eins og alltaf,“ en öll einbeiting Birkis er nú á landsleikina.

„Ég hugsa ekkert meira út í það fyrr en eftir leikina og svo sjáum við til hvað gerist.“

Hann er þó vongóður um að finna sér nýtt félag eftir landsleikina.

„Já, ég verð ekki atvinnulaus. Ég er viss um það.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.