Erlent

Felldu frumvarp Johnson um að boða til kosninga

Kjartan Kjartansson skrifar
Boris Johnson lagði fram frumvarp um að flýta kosningum eftir að þingið samþykkti að binda hendur hans varðandi útgöngu án samnings. Þingið felldi það.
Boris Johnson lagði fram frumvarp um að flýta kosningum eftir að þingið samþykkti að binda hendur hans varðandi útgöngu án samnings. Þingið felldi það. Vísir/EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, beið annan ósigur í kvöld þegar breska þingið hafnaði frumvarpi hans um að boða til kosninga í október. Áður hafði þingið samþykkt frumvarp sem á að koma í veg fyrir útgöngu úr Evrópusambandinu án samnings.

Tveir þriðju hlutar þingheims þurftu að samþykkja frumvarp Johnson til þess að það öðlaðist gildi. Þingmenn Verkamannaflokksins sátu hjá. Á endanum greiddu 298 þingmenn atkvæði með því að flýta kosningum um tvö ár en 56 gegn því. Vantaði 136 upp á að frumvarpið yrði samþykkt.

Johnson beindi reiði sinni að Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, eftir að niðurstaðan varð ljós. Corbyn hafi orðið fyrsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar til þess að hafna boði um kosningar.

„Ég get aðeins leitt líkum að því hvers vegna hann hikar. Augljósa ályktunin er að hann telur sig ekki geta unnið,“ sagði Johnson.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að örlög frumvarpsins sem neðri deildin samþykkti í kvöld um að fresta útgöngunni séu óljós. Það gengur nú til lávarðadeildarinnar þar sem fulltrúar Íhaldsflokksins gætu stöðvað það með málþófi. Þingfundum verður frestað í næstu viku samkvæmt ákvörðun Johnson.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×