Fótbolti

Daníel kominn með aðra sænska goðsögn við stjórnvölin

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Daníel í búningi Helsingborg
Daníel í búningi Helsingborg mynd/helsingborg
Sænska úrvalsdeildarliðið Helsingborg er búið að ráða eftirmann Henrik Larsson sem lét af störfum á dögunum eftir mikinn ófrið stuðningsmanna félagsins í sinn garð. 

Olaf Mellberg er tekinn við liðinu en aðeins eru rúmir tveir mánuðir síðan hann tók við danska úrvalsdeildarliðinu Fremad Amager. Hann sagði hins vegar upp störfum þar þegar Helsingborg falaðist eftir kröftum hans.

Líkt og Henrik Larsson átti Olaf Mellberg farsælan feril sem leikmaður þar sem hann lék lengst af með Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni auk þess að spila með Juventus, Olympiakos og Villarreal og fleiri liðum.

Akureyringurinn Daníel Hafsteinsson er á mála hjá Helsingborg en hann gekk í raðir félagsins um mitt sumar. Hann mun því leika undir stjórn tveggja af þekktustu leikmönnum í sögu Svía á fyrsta tímabili sínu með liðinu.

Mellberg er fimmti leikjahæsti landsliðsmaður Svíþjóðar en hann lagði skóna á hilluna 2014 og er þetta hans þriðja þjálfarastarf en hann var þjálfari sænska liðsins Brommapojkarna 2016-2017.

Helsingborg situr í 10.sæti sænsku úrvalsdeildarinnar og er fimm stigum frá fallsvæðinu þegar átta umferðir eru eftir af mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×