Innlent

Börnin á Laufásborg ánægð með saltfiskinn

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Börnin á Laufásborg voru sátt með saltfiskinn, en ítalski landsliðskokkurinn Lorenzo Alessio eldaði fyrir börnin.
Börnin á Laufásborg voru sátt með saltfiskinn, en ítalski landsliðskokkurinn Lorenzo Alessio eldaði fyrir börnin. EGILL AÐALSTEINSSON

Saltfiskvika fer nú fram á veitingastöðum um land allt. Markmið vikunnar er að vekja athygli á salfisknum heima fyrir. Landsliðskokkur eldaði saltfisk með ítölsku sniði fyrir börnin á leikskólanum Laufásborg í dag og voru þau flest ánægð með þann sælkeramat.

Markmið vikunnar er að gera saltfisknum hærra undir höfði og auka vægi hans heima fyrir en saltfiskurinn er vinsæl útflutningsafurð.

„Það eru allt of fáir sem eru að borða saltfisk og elda saltfisk heima. Við vonum að með þessu átaki verði meira um það,“ sagði Björgvin Þór Björgvinsson, verkefnastjóri hjá Íslandssstofu.

Alls taka þrettán veitingastaðir þátt í vikunni sem stendur til 15 september. Gestakokkar frá Ítalíu, Spáni og Portúgal koma hingað til lands og elda á völdum stöðum.

Börnin á Laufásborg eru meðal þeirra sem taka þátt í vikunni en í dag eldaði ítalskur landsliðskokkur saltfisk ofan í börnin.

Hann segir einstaklega gaman að elda fyrir börn sér í lagi vegna þess hve hreinskilin þau eru.

Það var ekki hægt að sjá annað en að börnin væru hæst ánægð með saltfiskinn samkvæmt myndbandinu.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.