Fótbolti

Arnar Þór sér marga framtíðar A-landsliðsmenn í U21-hópnum og stefnir með liðið á stórmót

Anton Ingi Leifsson skrifar
Karlalandsliðið í fótbolta spilar á laugardag en á morgun hefst undankeppni Evrópumóts leikmanna 21 árs og yngri.

Ísland og Lúxemborg mætast á Víkingsvellinum klukkan 16 á morgun, beint á Stöð 2 Sport, en leikurinn er fyrsti mótsleikur í nýrri undankeppni EM 2021.

Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen eru nýtt þjálfarateymi íslenska landsliðsins og Arnar er brattur fyrir komandi keppni.

„Við setjum þetta upp þannig að við viljum að strákarnir þori að koma fram og segja að við ætlum að vinna. Það er ósköp einfalt,“ sagði Arnar í samtali við nafna sinn, Björnsson, á æfingu liðsins í Víkinni í dag.

„Ef við viljum búa til A-landsliðsmenn framtíðar með leikmönnum úr U21-árs landsliðinu þá þurfum við að þora að stíga upp og þora að vinna leiki. Það er ákveðinn vani að venjast því að vera ekki alltaf þessi „underdog“ og geta tekið leiki í okkar hendum og stjórnað þeim.“







„Ég var að ræða við Eið Smára í gær að við höfum séð góða og jákvæða þróun á okkar leikmönnum síðan að við tókum við í mars. Við erum búnir að fylgjast með mörgum leikjum í sumar og það eru margir að taka skrefið sem til þarf að komast á hærra level.“

Arnari líst vel á komandi undankeppni og leikmannahópinn. Hann segir stefnan sé sett á stórmót með þetta lið.

„Ég er nánast pottþéttur á því að það eru margir framtíðar A-landsliðsmenn í þessum hópi og við leggjum upp með það að komast á lokamót með yngri landsliðin því það er einnig mikilvægt fyrir A-landsliðið.“

„Við ætlum að stefna á það að komast sem lengst og svo verður það að koma í ljós hvar skipið strandar en göngum út frá því að við ströndum ekkert og getum farið langt,“ sagði kokhraustur Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×