Innlent

Gular viðvaranir ráða ríkjum í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Úrkomuspáin á landinu klukkan tíu.
Úrkomuspáin á landinu klukkan tíu. Skjáskot/veðurstofa íslands

Spáð er talsverðri eða mikilli rigningu sunnan- og vestanlands í dag og gular viðvaranir í gildi allt frá Breiðafirði og austureftir suðurströndinni. Búast má við mjög snörpum vindhviðum á norðanverðu Snæfellsnesi og við Hafnarfjall fram eftir morgni.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að búast megi við nokkuð hvassri sunnanátt í áðurnefndum landshlutum í dag, með mikilli rigningu. Hiti verður 10 til 18 stig á landinu, hlýjast um landið norðaustanvert. Síðdegis dregur svo úr vindi og rigningu vestantil á landinu. Eins og áður segir eru gular viðvaranir í gildi á Suður- og Vesturlandi, nánar tiltekið á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og Suðausturlandi. Á vef Veðurstofunnar segir að búast megi við vatnavöxtum í ám og lækjum.

Þá er fólk hvatt til að sýna aðgát og einnig að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón. Á svæðum þar sem úrkoma verður mest má jafnframt búast við skriðum og grjóthruni í brattlendi.

Á morgun verður sunnan- og suðvestanátt, yfirleitt 5-10 m/s. Skúrir og milt veður en styttir upp austanlands. Og á mánudag er útlit fyrir fremur hæga breytilega átt með stöku skúrum, en rigningu um tíma á Vestfjörðum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:
Fremur hæg breytileg átt og víða dálitlar skúrir, einkum síðdegis. Hiti 6 til 12 stig.

Á þriðjudag:
Austan 5-13, en 13-18 syðst. Víða rigning, einkum sunnanlands, en úrkomulítið um landið norðvestanvert. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag:
Norðan og norðaustan 5-10 m/s og rigning eða súld norðan- og austantil á landinu og hiti 3 til 8 stig, en skýjað með köflum og yfirleitt þurrt um landið suðvestanvert og hiti 7 til 13 stig.

Á fimmtudag:
Fremur hæg breytileg átt og víða rigning. Heldur kólnandi veður.

Á föstudag:
Vestlæg átt, skúrir á víð og dreif og fremur svalt í veðri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.