Fótbolti

Neymar skoraði og lagði upp í fyrsta leiknum í þrjá mánuði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar skoraði sitt 61. landsliðsmark í nótt.
Neymar skoraði sitt 61. landsliðsmark í nótt. vísir/getty
Neymar lék sinn fyrsta leik í þrjá mánuði þegar Brasilía gerði 2-2 jafntefli við Kólumbíu í vináttulandsleik í Miami í nótt. Hann lét heldur betur til sín taka, lagði fyrra mark Brassa upp og skoraði það seinna.Neymar meiddist í vináttulandsleik Brasilíu og Katar 6. júní og missti fyrir vikið af Suður-Ameríkukeppninni sem Brassar unnu.Um fátt var meira rætt í sumar um möguleg félagaskipti Neymars. Hann verður hins vegar áfram hjá Paris Saint-Germain, allavega fram í janúar.Casemiro kom Brasilíu yfir þegar hann skallaði hornspyrnu Neymars í netið á 19. mínútu. Luis Muriel jafnaði úr vítaspyrnu á 25. mínútu og níu mínútum síðar kom hann Kólumbíumönnum yfir með sínu öðru marki.Neymar jafnaði í 2-2 á 58. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu Philippes Coutinho.Þetta var 61. mark Neymars í 98. landsleiknum. Aðeins Pelé (77) og Ronaldo (62) hafa skorað fleiri landsliðsmörk fyrir Brasilíu en Neymar.Brasilía mætir Perú í vináttulandsleik í Los Angeles á þriðjudaginn. Þessi lið mættust í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar í sumar þar sem Brassar unnu 3-1 sigur.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.