Fótbolti

Neymar skoraði og lagði upp í fyrsta leiknum í þrjá mánuði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar skoraði sitt 61. landsliðsmark í nótt.
Neymar skoraði sitt 61. landsliðsmark í nótt. vísir/getty

Neymar lék sinn fyrsta leik í þrjá mánuði þegar Brasilía gerði 2-2 jafntefli við Kólumbíu í vináttulandsleik í Miami í nótt. Hann lét heldur betur til sín taka, lagði fyrra mark Brassa upp og skoraði það seinna.

Neymar meiddist í vináttulandsleik Brasilíu og Katar 6. júní og missti fyrir vikið af Suður-Ameríkukeppninni sem Brassar unnu.

Um fátt var meira rætt í sumar um möguleg félagaskipti Neymars. Hann verður hins vegar áfram hjá Paris Saint-Germain, allavega fram í janúar.

Casemiro kom Brasilíu yfir þegar hann skallaði hornspyrnu Neymars í netið á 19. mínútu. Luis Muriel jafnaði úr vítaspyrnu á 25. mínútu og níu mínútum síðar kom hann Kólumbíumönnum yfir með sínu öðru marki.

Neymar jafnaði í 2-2 á 58. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu Philippes Coutinho.


Þetta var 61. mark Neymars í 98. landsleiknum. Aðeins Pelé (77) og Ronaldo (62) hafa skorað fleiri landsliðsmörk fyrir Brasilíu en Neymar.

Brasilía mætir Perú í vináttulandsleik í Los Angeles á þriðjudaginn. Þessi lið mættust í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar í sumar þar sem Brassar unnu 3-1 sigur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.