Erlent

Þingfundum verður frestað og útlit fyrir að kosningum verði hafnað

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Stjórnarandstaðan á Bretlandi mun að öllum líkindum hafna tillögu Boris Johnson forsætisráðherra um að boða snemma til kosninga. Stjórnarandstaðan hafði áður tilkynnt um að hún myndi ekki styðja tillögu Boris Johnson um að boða til kosninga í dag, rétt eins og hún hafnaði henni í síðustu viku. Ástæðan var sú að þingmenn vildu fyrst að Johnson kæmist að formlegu samkomulagi við Evrópusambandið um að fresta útgöngu Breta og þannig koma í veg fyrir að Bretar gangi út án samnings þann 31. október.

Í dag varð að lögum frumvarp stjórnarandstöðunnar sem skuldbindur Johnson til þess að biðja um frest. Þingmenn þurftu að vera á harðahlaupum enda er þingfundum frestað frá deginum í dag og allt þar til 14. október.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, var ósáttur við Johnson í gær og sagði hann reyna að forðast erfiðar spurningar með því að fresta þingfundum. Um kosningar hafði hann þetta að segja:

„Við munum gera allt sem við getum til þess að fyrirbyggja að við förum út án samnings þann 31. október og munum ekki styðja tillögu um kosningar fyrr en ljóst er að það gerist ekki. Við viljum öll kosningar. Við viljum öll komast hjá samningslausri útgöngu.“

John Bercow, forseti breska þingsins og þingmaður Íhaldsflokksins, sagði fyrr í dag að ef þingið samþykkti kosningar myndi hann sitja út kjörtímabilið en ekki gefa kost á sér á ný. Ef ekki kæmi til kosninga myndi hann stíga til hliðar þann 31. október.

En Boris Johnson fundaði sjálfur með Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, í Dyflinni í dag um útgöngumálið. Voru þeir sammála um að þeir vildu síður að útgöngu væri frestað og að þeir vildu reyna að ná samkomulagi sem fyrst.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.