Innlent

Lögreglan prófar myndavélabúnað í bílana

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Persónuverndarhliðin er alltaf í forgrunni hjá okkur, segir Jónas Ingi hjá ríkislögreglustjóra.
Persónuverndarhliðin er alltaf í forgrunni hjá okkur, segir Jónas Ingi hjá ríkislögreglustjóra. Vísir/Vilhelm
Embætti ríkislögreglustjóra prófar nú í tilraunaskyni búnað til þess að geta lesið bílnúmer og flett þeim upp í tölvukerfi lögreglunnar. Búnaðurinn er vel þekktur í nágrannalöndum okkar og hefur lengi verið notaður í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Með honum á að vera hægt að komast að því skjótt hvort viðkomandi bíll sé eftirlýstur, ótryggður, óskoðaður og þar fram eftir götunum.

Morgunblaðið greindi frá tilraunaverkefni lögreglunnar í morgun. Jónas Ingi Pétursson, framkvæmdastjóri rekstrar hjá ríkislögreglustjóra, minnir á að engin ákvörðun hafi verið tekin um notkun. Nú sé búnaðurinn í bílum án tölvubúnaðarins en verið sé að máta búnaðinn við íslensk skilyrði.

Búnaðurinn tekur myndir af númeraplötum og umbreytir svo upplýsingunum yfir í texta. Koma þarf í ljós hversu vel það gangi. Númeraplötur á Íslandi séu tvenns konar. Bæði þær kassalaga aftan á jeppum og svo þær ílöngu.

„Það liggur engin ákvörðun fyrir um að taka búnaðinn í notkun,“ segir Jónas. Búnaðurinn verði prófaður við ólík skilyrði og skoðað hvað máli skipti. Rökkur, rigning, ofbirta og þess háttar.

Varðandi persónuverndarhliðina segir Jónas að ef ákvörðun um að innleiða búnaðinn verði niðurstaðan þá verði allt að sjálfsögðu í samræmi við lög og reglur.

„Persónuverndarhliðin er alltaf í forgrunni hjá okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×