Innlent

Fullar sættir í Árskógamáli FEB

Andri Eysteinsson skrifar
Fjölbýlishúsið við Árskóga sem Félag eldri borgara lét byggja.
Fjölbýlishúsið við Árskóga sem Félag eldri borgara lét byggja. Vísir
Fullar sættir hafa náðst í máli kaupenda einnar íbúðar við Árskóga gegn Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Fjalla átti um frávísunarkröfu félagsins fyrir héraðsdómi í næstu viku.

Stjórn FEB afturkallaði nýtingu ætlaðs kaupréttar félagsins á íbúðinni í dag. Samhliða samþykktu kaupendur að draga málshöfðun sína til baka og gengu að því samkomulagi sem FEB hafði áður boðið þeim sem höfðuðu mál gegn félaginu. Því er ekkert mál lengur rekið fyrir dómstólum.

Mikið hefur verið fjallað um nýbyggingar FEB við Árskóga í Breiðholti en FEB krafði kaupendur að íbúðunum um milljónir aukalega eftir að framkvæmdin fór fram úr kostnaðaráætlun. Voru fjölmargir ósáttir við vinnubrögð FEB í kjölfarið og voru höfðuð dómsmál.

Sjá einnig: Vilja milljóna aukagreiðslu frá eldri borgurum vegna nýrra íbúða í Breiðholti

Í tilkynningu frá FEB segir að „ávallt hafði staðið til að afhenda félagsmönnum íbúðirnar á kostnaðarverði en vanáætlaður fjármagnskostnaður og mistök sem gerð voru við kaupsamningsgerðina ollu því að félagið þurfti að óska eftir viðbótargreiðslu til að geta lokið framkvæmdum. Í kjölfar þess að málið kom upp náði félagið samkomulagi um niðurfellingu á hluta kostnaðarins og því fá kaupendur íbúða í Árskógum þær á verði sem er undir raunverulegum kostnaði við byggingu þeirra.“

„Stjórn Félags eldri borgara vill ítreka afsökunarbeiðni félagsins til þeirra sem orðið hafa fyrir áhrifum af mistökum þeim sem þarna urðu og vill þakka kaupendum fyrir þann skilning sem þeir hafa sýnt félaginu í þröngri stöðu,“ segir enn fremur í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×