Fótbolti

Kjartan Henry skoraði tvö og Guðmundur lagði upp tvö

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kjartan Henry var hetja Velje gegn Skive.
Kjartan Henry var hetja Velje gegn Skive. vísir/getty
Kjartan Henry Finnbogason skoraði bæði mörk Velje í 2-1 sigri á Skive í dönsku B-deildinni í dag.

Kjartan Henry hefur skorað fjögur mörk á tímabilinu og er næstmarkahæstur í deildinni. Velje er í 5. sæti með átta stig.

Guðmundur Þórarinsson lagði upp tvö mörk þegar Norrköping rúllaði yfir Helsingborg, 5-0, í sænsku úrvalsdeildinni.

Þetta var þriðji sigur Norrköping í röð en liðið er í 6. sæti deildarinnar með 37 stig. Ísak Bergmann Jóhannesson, sem skoraði í bikarleik með Norrköping í síðustu viku, var ekki í leikmannahópi liðsins í dag.

Daníel Hafsteinsson lék síðustu mínúturnar fyrir Helsingborg sem hefur tapað þremur leikjum í röð og nálgast fallsvæðið.

Kolbeinn Sigþórsson kom inn á sem varamaður á 82. mínútu þegar AIK bar sigurorð af Östersund, 1-3. Þegar Kolbeinn kom inn á var staðan 1-1. AIK skoraði svo tvö mörk undir lokin og tryggði sér sigur.

AIK er í 2. sæti deildarinnar 43 stig, einu stigi á eftir toppliði Djurgården.

Þá vann Kristianstad 2-0 sigur á Djurgården í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni.

Svava Rós Guðmundsdóttir og Sif Atladóttir voru báðar í byrjunarliði Kristianstad sem er í 6. sæti deildarinnar með 25 stig. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad sem hefur unnið fimm af átta heimaleikjum sínum á tímabilinu.

Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn fyrir Djurgården sem er í 10. sæti með níu stig. Guðrún Arnardóttir sat á varamannabekk liðsins í dag. Djurgården hefur tapað sjö leikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×