Innlent

Ást og friður ef fólk sækir bílana

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Eigendur þessara bíla hafa frest til mánudagsins til að fjarlægja bílana
Eigendur þessara bíla hafa frest til mánudagsins til að fjarlægja bílana Mynd/Flensborg
Flensborgarskólinn í Hafnarfirði biðlar til þeirra sem kunni að eiga númerslausa bíla á bílastæðinu við skólann að fjarlægja þá, ella verði bílarnir fjarlægðir næstkomandi mánudag.

Í færslu á Facebook-síðu skólans segir að átta númerslausir bílar séu nú á bílastæði skólans og að engin leið sé að nálgast upplýsingar um eigendur þeirra. Er skorað á eigendur bílanna að fjarlægja þá.

„Það er alltaf af og til á svona plani eins og þessu að það eru skyldir eftir númerslausir bílar og þá er bara settur miði á þá. Þegar við erum orðnir leiðir á að eigandinn bregðist við þá hringjum við bara í Vöku,“ segir Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgar í samtali við Vísi og viðurkennir að númerslausu bílarnir fari nokkuð í taugarnar á starfsfólki.

Á bílastæðinu má einnig finna kerrur, hjólhýsi og fellihýsi en Magnús segir að flestir eigendur þeirra hafi fengið leyfi fyrir því að geyma vagnana á bílastæðinu. Nú sé hins vegar óskað eftir því við eigendur þeirra að vagnarnir verði fjarlægðir, enda skólastarf komið á fullt.

„Við erum búin að vera í sambandi við flest af þessu fólki og það ætlar að taka hjólhýsin og tjaldvagnana og annað næstu daga og þá er bara allt í ást og friði áfram,“ segir Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×