Innlent

Kanna hvort áfengi hafi verið bætt út í Caprisun-drykki eða hvort gerjun hafi átt sér stað

Birgir Olgeirsson skrifar
Hagkaup er með verslun í Spönginni í Grafarvogi.
Hagkaup er með verslun í Spönginni í Grafarvogi. FBL/ERNIR
Starfsmenn Hagkaups kanna nú hvort einhver óprúttinn aðili hafi átt við fernur af Caprisun-svaladrykkjum. Greint var frá því í Facebook-hópi sem er tileinkaður íbúum Grafarvogs í gærkvöldi að grunur væri um að einhver hafi rofið innsigli á fernum sem voru til sölu í verslun Hagkaups í Spönginni.

Fullyrt var í þessum Facebook-hópi að búið væri að bæta áfengi út í safann og íbúar hvattir til að skoða vel innsigli á matvælum.

Svanberg Halldórsson, rekstrarstjóri verslana Hagkaups, segist í samtali við Vísi hafa fengið fregnir af þessu seint í gærkvöldi. Hann hafi rætt við verslunarstjórann í Spönginni og nú sé hafin rannsókn á málinu. Hefur verið tekin ákvörðun um að taka Caprisun-drykkina úr sölu á meðan því stendur. Þá sé ekki vitað hvort áfengi hafi verið bætt út í drykkina eða hvort að varan hafi einfaldlega verið skemmd og gerjun átt sér stað.

Svanberg hafði ekki frekari upplýsingar að veita á þessari stundu en send verður tilkynning þegar þær liggja fyrir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×