Innlent

MAST veitir rekstrar­leyfi til fisk­eldis á Vest­fjörðum eftir ó­gildingu úr­skurðar­nefndar

Eiður Þór Árnason skrifar
Frá eldiskvíum á Patreksfirði
Frá eldiskvíum á Patreksfirði Vísir/Einar Árnason
Matvælastofnun hefur veitt fiskeldisfyrirtækinu Arctic Sea Farm rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna laxeldi í Patreksfirði og Tálknafirði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun. Stofnunin hafði áður óskað eftir athugasemdum við tillögur að rekstrarleyfi fyrirtækjanna Arctic Sea Farm og Fjarðalax fyrr í sumar. Matvælastofnun bárust athugasemdir frá tveimur aðilum vegna tillögunnar.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafði áður fellt úr gildi rekstrarleyfi fyrirtækjanna fyrir samtals 17.500 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum á Patreksfirði og Tálknafirði í september á síðasta ári. Hafa fyrirtækin síðan starfað samkvæmt bráðabirgðarekstrarleyfi Matvælastofnunar. Í október síðastliðnum voru gerðar breytingar á lögum um fiskeldi þar sem ráðherra var veitt heimild til að gefa út tímabundið rekstrarleyfi til allt að tíu mánaða.

Leyfin voru felld úr gildi í september þar sem úrskurðarnefndin taldi að skort hefði á umræðu um valkosti í umhverfismati fyrir eldið. Mikið hefur verið deilt um starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrirtækjanna. Þar hafa einna helst tekist á umhverfis- og byggðasjónarmið.

Sjá einnig: Um­hverfis­á­hrif og byggða­sjónar­mið í hat­rammri um­ræðu um fisk­eldi

Arctic Sea Farm sótti upprunalega um rekstrarleyfi í september 2016 fyrir 6.800 tonna laxeldi í Patreks- og Tálknafirði. Matvælastofnun hefur nú fallist á að veita fyrirtækinu rekstrarleyfið. Úttekt starfsstöðva hefur farið fram og við gildistöku nýs rekstrarleyfis fellur bráðabirgðarekstrarleyfið úr gildi.

Hámarkslífmassi eldisins í Patreks- og Tálknafirði mun ekki fara yfir 7.800 tonn sem er í samræmi við burðarþolsmat fjarðanna, er fram kemur í tilkynningunni frá Matvælastofnun. Þar kemur fram að tekið hafi verið tillit til áhættumats Hafrannsóknarstofnunar við útgáfu rekstrarleyfisins og að starfsemin sé einnig háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar.

Framkvæmd fyrirtækisins er jafnframt sögð hafa farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum í samræmi við þar til gerð lög.


Tengdar fréttir

Gat á sjókví í Tálknafirði

Við köfunareftirlit sem átti sér stað fyrr í þessum mánuði, eða 6. ágúst sl., var nótarpoki heill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×