Innlent

Um­hverfis­á­hrif og byggða­sjónar­mið í hat­rammri um­ræðu um fisk­eldi

Rýnt í þau gögn sem liggja fyrir frá opinberum stofnunum um umhverfisáhrif stækkunar laxeldis í Patreksfirði og Tálknafirði, sem og skýrslur Hafrannsóknastofnunar um erfðablöndun eldisfiska við íslenska laxastofna.

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá laxeldi á Patreksfirði. vísir/einar

Undanfarnar vikur hefur fiskeldi hér á landi verið mikið í umræðunni, ekki síst vegna ákvörðunar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) um að fella úr gildi starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrirtækjanna Fjarðalax og Arctic Sea Farm fyrir stækkun laxeldis í Patreksfirði og Tálknafirði.

Umhverfisverndarsamtök og veiðiréttarhafar í laxveiðiám á Vestfjörðum kærðu leyfisveitingarnar á sínum tíma en í umræðunni um eldið, sem oft á tíðum er ansi hatrömm, takast gjarnan á byggðasjónarmið annars vegar og umhverfissjónarmið hins vegar.

Málið er langt því frá einfalt og snýr bæði að pólitíkinni og stefnumótun þar varðandi fiskeldi sem og stjórnsýslunni og hvernig unnið er þar með þessa nýju atvinnugrein. Hér verður leitast við að rýna í þau gögn sem liggja fyrir frá opinberum stofnunum um umhverfisáhrif stækkunar laxeldis í Patreksfirði og Tálknafirði, sem og skýrslur Hafrannsóknastofnunar um erfðablöndun eldisfiska við íslenska laxastofna.

Lögum um fiskeldi breytt í vikunni

Frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um breytingar á lögum um fiskeldi var samþykkt á Alþingi á þriðjudag. Með breytingunni er ráðherra nú heimilt, að undangenginni umsögn Matvælastofnunar, að veita fyrirtækjum í fiskeldi bráðabirgðaleyfi til allt að tíu mánaða.

Frumvarp til breytingar á lögum um fiskeldi í þessa átt var lagt fram í kjölfar þess að úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála felldi úr gildi bæði rekstrarleyfi og starfsleyfi fiskeldisfyrirtækjanna Arctic Sea Farm og Fjarðalax.

Arctic Sea hafði fengið rekstrarleyfi frá Matvælastofnun (MAST) þann 22. desember í fyrra fyrir 6.800 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Fyrirtækið hafði fengið starfsleyfi fyrir sama eldi nokkrum dögum áður frá Umhverfisstofnun (UST), en skilyrði fyrir starfsemi fiskeldisfyrirtækja eru annars vegar rekstrarleyfi frá MAST og hins vegar starfsleyfi frá UST, samkvæmt lögum um fiskeldi.

Fjarðalax, sem er dótturfyrirtæki Arnarlax á Bíldudal, hafði fengið leyfi fyrir 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum, einnig í Patreksfirði og Tálknafirði. Fyrirtækin sóttu um leyfin í sameiningu og gerðu sameiginlega matsskýrslu á umhverfisáhrifum framkvæmdanna, en framkvæmdirnar lutu mati á umhverfisáhrifum, en það ferli hófst árið 2012 að sögn Kjartans Ólafssonar, stjórnarformanns Arnarlax. Fékk Fjarðalax rekstarleyfi frá MAST og starfsleyfi frá UST á sama tíma og Arctic Sea Farm.

Kjartan Ólafsson er stjórnarformaður Arnarlax. fréttablaðið/stefán

Brutu lög að mati nefndarinnar með því að gera ekki samanburð á valkostum

Leyfin voru hins vegar felld úr gildi með úrskurðum úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindarmál (ÚUA) sem féllu í lok september og í byrjun október. Voru leyfin felld úr gildi þar sem nefndin telur að það hafi brotið í bága við lög að ekki hafi farið fram samanburður á umhverfisáhrifum annarra valkosta en sjókvíaeldis með frjóum fisk, sem er sú framleiðsla sem fyrirtækin hyggja á.

Kemur fram í úrskurðum nefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við þetta í áliti sínu á skýrslu framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum. Vegna þessa hafi MAST og UST ekki getað veitt leyfin á grundvelli skýrslu framkvæmdaraðila og álits Skipulagsstofnunar þar sem gögnin hafi ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu leyfanna.

Þannig hafi Umhverfisstofnun borið skylda til að tryggja að málið væri nægilega upplýst, í samræmi við 10. grein stjórnsýslulaga, en í því felist að gæta að því að lögbundið álit Skipulagsstofnunar sé nægilega traustur grundvöllur fyrir leyfisveitingu. Sama skylda hvíldi á Matvælastofnun, samkvæmt úrskurðum nefndarinnar.


Hafi legið fyrir að ekki voru aðrir raunhæfir valkostir

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, segir að almennt sé það svo að samanburður á valkostum sé talinn lykilþáttur í mati á umhverfisáhrifum. Í hverju tilviki þurfi að fara yfir það hvort og þá hvaða valkostir geti talist raunhæfir fyrir framkvæmdina en raunhæfni valkosta þurfi að skoða út frá því hvort þeir séu til þess fallnir að ná markmiðum framkvæmdarinnar.

„Þessi athugun þarf að fara fram en það getur verið að í einstökum tilvikum teljist ekki vera aðrir raunhæfir valkostir. En það sem er þá mikilvægt er að það sé ítarlega rökstutt og gert grein fyrir fyrir því af hálfu framkvæmdaaðila hvers vegna aðrir valkostir teljist ekki raunhæfir. Það má kannski segja að í þessu tilfelli hefði alveg mátt gera því ítarlegri skil í matsskýrslunni en það er ekki slíkur ágalli að okkar mati að það hefði fellt leyfin úr gildi. Við teljum að það hafi alveg legið fyrir að hinir stóru valkostirnir í þessu, geldfiskur, landeldi og lokaðar kvíar, væru ekki taldir vera raunhæfir valkostir fyrir markmið framkvæmdarinnar,“ segir Ásdís Hlökk.

Bæði Fjarðalax og Arctic Sea Farm hafa sótt um rekstrarleyfi til bráðabirgða til sjávarútvegsráðherra. Þá hafa fyrirtækin jafnframt sótt um undanþágu frá starfsleyfi til Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- oga auðlindaráðherra. Sú heimild snýr að því að ráðherra veiti undanþágu frá starfsleyfi, það er að fyrirtækin fái að starfa áfram þrátt fyrir að starfsleyfi hafi verið fellt úr gildi, en felur ekki í sér endurskoðun á úrskurðinum.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir er forstjóri Skipulagsstofnunar. Fréttablaðið/gva

Þurfa að skýra frekar og fjalla um aðra raunhæfa kosti

Fyrirtækin geta síðan valið um tvær leiðir eða farið þær báðar í tilraun til þess að halda rekstrarleyfum og starfsleyfum til frambúðar.

Annars vegar geta fyrirtækin kært úrskurði ÚUA til dómstóla og látið reyna á niðurfellingu leyfanna, en úrskurðum nefndarinnar fæst ekki hnekkt nema fyrir dómstólum þar sem úrskurðirnir eru endanlegir.

Hins vegar geta fyrirtækin farið í það ferli að bæta úr þeim annmörkum sem fjallað er um í úrskurðum ÚUA til þess að umsókn þeirra um sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði standist lög.

Að sögn Kjartans liggur ekki fyrir hvora leiðina framkvæmdaaðilar hyggjast fara eða hvort þeir fari jafnvel báðar leiðir.

Á fundi fyrirtækjanna með fulltrúum Skipulagsstofnunar, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar í byrjun vikunnar lagði Skipulagsstofnun fram tillögu að ferli varðandi það hvernig sækja má um leyfin að nýju.

„Í þessu tilviki, út frá því að það sé ekki um aðra raunhæfa valkosti að ræða, þá þarf að skýra það frekar og fjalla um hvaða aðrir kostir voru skoðaðir og hvers vegna var fallið frá þeim. Síðan þyrfti að fjalla um þessa valkosti, landeldi, lokaðar kvíar og geldfisk,“ segir Ásdís Hlökk.

Hún segir að matið og matssýrslan standist að öðru leyti. Um væri að ræða viðbótargreinargerð sem framkvæmdaaðilar myndu senda til leyfisveitenda sem síðan myndu leita umsagnar Skipulagsstofnunar um þá greinargerð. Leyfisveitingaferlið færi síðan eftir þeim lögum og reglum sem um það gilda.

Frá eldi Arnarlax í Patreksfirði. vísir/einar

Engar breyttar forsendur ef ekki er um aðra raunhæfa kosti að ræða

Ásdís Hlökk segir að Skipulagsstofnun væri ekki að leggja fram þessa tillögu nema vegna þess að stofnunin teldi að ekkert hefði breyst varðandi það hvort aðrir valkostir séu raunhæfir.

Væri slíkt upp á teningnum, líkt og raunin hefur verið í málum tengdum lagningu raflína, þyrfti að fara í matsferlið að nýju. Framkvæmdaaðilar hafi engu að síður val um það hvort þeir fari aftar í ferlið þannig að matið sé tekið upp í heild eða hluta, kjósi þeir það.

Aðspurð hvort að eitthvað sé fast í hendi varðandi það hvort að fyrirtækin fái leyfin að nýju segir Ásdís Hlökk að leyfisveitendur þurfi að svara fyrir það.

„En það eru svo sem engar breyttar forsendur hvað varðar leyfisveitingu, að því gefnu að það sé ekki um aðra raunhæfa valkosti að ræða,“ segir Ásdís Hlökk en bendir jafnframt á að leyfin gætu svo komið aftur til kasta ÚUA verði þau veitt á ný.


Þurfi að taka afstöðu til nýrra gagna

„Ef að fyrirtækin ákveða að fara ekki í dómsmál þá þarf að taka afstöðu og þá væntanlega gefa út ný leyfi, hafi menn bætt úr annmörkunum. Þá þurfum við að taka afstöðu til þess hvort að við teljum að svo hafi verið og hvort menn uppfylli öll skilyrði sem kveðið er á um í lögunum. Ef menn hins vegar ákveða að fara með þetta fyrir dóm, þá þurfa menn væntanlega að bíða eftir dómsniðurstöðu til þess að sjá hvort að þessi stjórnsýsluákvörðun nefndarinnar er felld úr gildi. Ef að hún er felld úr gildi, sem við vitum náttúrulega ekkert um hvort að verði niðurstaðan, þá halda leyfin sér eins og þau voru gefin út,“ segir Viktor Stefán Pálsson, forstöðumaður samhæfingarsviðs MAST.

Viktor Stefán segir aðspurður ekki hægt að segja til um hvort að MAST muni veita framkvæmdaaðilum rekstrarleyfi kjósi þeir að fara þá leið að bæta úr þeim annmörkum sem voru á umhverfismatinu. Sú ákvörðun stofnunarinnar muni byggjast á mati hennar á þeim gögnum sem lögð verða fram.

„Það er búið að leggja fram stóran hluta af þeim gögnum og þau munu ekki breytast en ef menn ætla að bæta úr annmörkunum þá þarf að leggja fram ný gögn og þá þarf að taka nýja afstöðu til þeirra gagna.“

Það má því segja að það sé lítið, ef eitthvað, fast í hendi varðandi það hvort að fyrirtækin fái rekstrarleyfi og starfsleyfi til frambúðar að nýju, hvor leiðin sem farin verður í málinu. 

Frá Bíldudal í Vesturbyggð þar sem íbúum hefur fjölgað undanfarin ár með tilkomu laxeldis. fréttablaðið/pjetur

„Staðfesting á  því að eldisfiskur geti blandast villtum fiski“

Eins og komið hefur fram bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum undanfarna daga telur sveitarstjórnarfólk á Vestfjörðum að ógilding leyfanna geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir byggð í fjórðungnum. Fjöldi fólks starfar í laxeldinu og þannig sé greinin mikilvæg fyrir framtíðaratvinnuuppbyggingu á svæðinu. Hún hafi í raun snúið byggðaþróun á Vestfjörðum við.
 
Á móti þessum byggðasjónarmiðum koma umhverfissjónarmið en óumdeilt er að laxeldi hefur áhrif á umhverfið. Á þeim forsendum kærðu náttúruverndarsamtök og veiðiréttarhafar leyfisveitingar til Fjarðalax og Arctic Sea Farm í janúar síðastliðnum.

Nefndu þeir meðal annars fyrirsjáanlega hættu vegna erfðablöndunar eldislax við villta laxastofna í ám, en í úrskurði ÚUA kemur fram að kærendur eigi mikilla að hagsmuna að gæta í Haffjarðará, Fífustaðadalsá, Bakkadalsá, Vatnsdalsá á Barðaströnd, Hvannadalsá, Langadalsá, Þverá og Laxá á Ásum.

Í umfjöllun um erfðablöndun í áliti Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum segir meðal annars að í matsskýrslu framkvæmdaaðila komi fram að strokulaxar úr eldi geti haft bein áhrif á erfðamengi villtra laxastofna. Segir í álitinu að til að fyrirbyggja erfðablöndun þurfi að leggja mikla áherslu á að laxaseiði sleppi ekki úr eldi eða lax í lok eldistímans, þegar það sé stutt í að hann nái kynþroska.

Í athugasemd við umfjöllun um erfðablöndun í álitinu segir Fiskistofa:

„Fiskistofa telur að bæta þurfi þekkingu á lífríki ferskvatns á Vestfjörðum áður en frekari uppbygging verði í fiskeldi á svæðinu. Stofnunin telur eldislax sem sleppi úr fyrirhuguðu eldi kunni að berast í ár og hafa óæskileg áhrif á náttúrulega stofna og mikilvægt sé að lagt sé mat á hættu á slysasleppingum vegna aukinnar laxaframleiðslu á Vestfjörðum. Ef farið væri hægar í uppbyggingu eldisins en fyrirhugaðar framkvæmdir geri ráð fyrir fengist reynsla  á hver raunveruleg umhverfisáhrif  yrðu  og  ráðrúm  fengist  til  að  draga  úr  hættu  fyrir  náttúrulega  stofna  laxfiska  og vistkerfi strandsvæða og ferskvatns. Á sínum tíma hafi Fjarðalax tilkynnt um strok 200 laxa úr eldi, sem  síðar  var  endurmetið sem 500  fiskar. Í  kjölfarið hafi  kynþroska eldislax veiðst  í Botnsá  í Patreksfirði,  sem  sé  staðfesting  á  því  að  eldisfiskur  geti  blandast  villtum  fiski  ef  náttúrulegur laxastofn  og  hentug  hrygningarskilyrði  séu  til  staðar.“

Seiði í laxeldi Arctic Sea Farm fyrr í mánuðinum. vísir/einar

Æskilegt hámarkseldi 20 þúsund tonn

Hafrannsóknastofnun hefur rannsakað erfðablöndun eldislaxa af norskum uppruna við íslenska laxastofna, auk þess sem stofnunin hefur unnið áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Samkvæmt því er æskilegt hámarkseldi í Patreksfirði, Tálknafirði og Patreksfjarðarflóa 20 þúsund tonn, og er það eldi sem Fjarðalax og Arctic Sea Farm höfðu fengið leyfi fyrir því innan áhættumatsins.

Það kom út um miðjan júlí 2017, tæpu ári eftir að álit Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrium vegna eldis í Patreksfirði og Tálknafirði kom út, en síðar sama sumar kom út skýrsla um erfðablöndunina. Í rannsókninni var könnuð erfðablöndun á meðal villtra laxa í nágrenni eldissvæða á Vestfjörðum.

Segir í ágripi skýrslunnar að vísbendingar um erfðablöndun hafi mátt greina í sex vatnsföllum en þar af voru skýr merki í Botnsá í Tálknafirði og í Sunndalsá í Trostanfirði, sem er einn af innfjörðum Arnarfjarðar. Hafró sendi svo umsögn til MAST í lok nóvember 2017, áður en rekstrarleyfið var gefið út, vegna fyrirhugaðrar stækkunar á eldi Fjarðalax og Arctic Sea Farm.


Geti haft neikvæð áhrif á stofna laxfiska á sunnanverðum Vestfjörðum

Í umsögninni, sem kærendur vísuðu meðal annars til þegar rekstrarleyfi og starfsleyfi voru kærð og Vísir hefur undir höndum, sagði að gjörbreytt staða væri nú komin upp frá því að matsskýrsla framkvæmdaaðila var unnin og Skipulagsstofnun gaf álit sitt í september 2016. Í áliti stofnunarinnar þá hefði verið getið um slysasleppingu í Patreksfirði og sagt að engar upplýsingar lægju fyrir um hrygningu strokulaxa í Botnsá í Tálknafirði.

Þá sagði í umsögninni:

„Rannsókn Hafrannsóknastofnunar greindi hins vegar erfðablöndun eldislaxa og náttúrulegra laxa í ánni þar sem aldur flestra blendingsseiða var í samræmi við tímasetningu slysasleppingarinnar. Rannsóknin sýndi einnig fram á að erfðablöndun hefði átt sér stað fyrir áðurnefnda slysasleppingu en það ár var ekki tilkynnt að eldislax hefði strokið. Það sama á við um erfðablöndunina sem greindist í ám í Arnarfirði að ekki var hægt að tengja aldur seiða við tilkynnt strok. Hins vegar var samræmi á milli aldurs þeirra blendinga og veiðar eldislaxa í ám í Arnarfirði. Haustið 2017 hafa veiðst strokulaxar í á í Arnarfirði og í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi en enginn hefur tilkynnt slysasleppingu.“

Niðurstaða Hafró í umsögninni var sú að stofnunin telji að fyrirhuguð framkvæmd geti haft neikvæð viðsfræði- eða erfðafræðiáhrif á stofna laxfiska á sunnanverðum Vestfjörðum.

Frá fiskeldi í Noregi þar sem framleidd eru yfir milljón tonna á ári. getty/Artur Widak

Erfðablöndun helsta ógnin við villta laxastofna í Noregi

Í fiskeldi Fjarðalax og Arctic Sea Farm í Patreksfirði er notaður eldisstofn af norskum uppruna en í áhættumati Hafró segir að norskur lax sé fjarskyldur íslenskum laxi. Þannig hafi íslenskar stofnerfðarannsóknir leitt í ljós erfðabreytileika milli íslenskra laxastofna og sýnt að hver á hefur sinn sérstaka stofn. Íslenskur lax sé fjarskyldur öðrum Atlantshafslaxi.
 
Að því er segir í skýrslu Hafró um erfðablöndun er talið að erfðablöndun sé helsta ógnin við villta laxastofna í Noregi, en í áhættumati stofnunarinnar segir að mjög erfitt hafi verið að greina erfðablöndun í villtum stofnum þar í landi vegna þess að mjög lítill erfðamunur sé á villtum fiski og eldisfiski. Erfðatækninni hefur hins vegar fleygt fram undanfarin ár og er vísað í viðamikla rannsókn í áhættumatinu:

„[...] þar sem greind voru sýni úr 147 norskum ám (3/4 hlutar af villtum laxastofnum í Noregi) greindist tölfræðilega marktæk erfðablöndun í helmingi ánna. Í um það bil fjórðungi ánna reiknaðist hlutfall erfðablöndunar hærra en 10% og meðaltalsgildi erfðablöndunar í öllum ám var 6,4%.

Helmingur ánna var hins vegar laus við erfðablöndun þannig að miðgildi erfðablöndunar var eðlilega mun lægra eða 2,3%.“

Segir svo í ágripi áhættumatsins um erfðablöndun í ám hér á landi:

„Frumforsenda greiningarinnar er að náttúrulegir laxastofnar skaðist ekki. Sé tekið tillit til varúðarsjónarmiða er miðað við að fjöldi eldislaxa verði ekki meira en 4% í ánum en erfðablöndun verði mun lægri. Notuð voru bestu fáanleg gögn bæði innan lands og utan. Búið var til dreifingarlíkan sem sýnir hvernig eldislax getur dreifst frá eldissvæðum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Fjöldi eldislaxa sem getur komið í ár er háður fjarlægð frá eldissvæði og umfangi eldisins.“

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnslífríki hjá Hafrannsóknarstofnun. fréttablaðið/gva

Farið í endurskoðun á áhættumatinu

Útreikningar áhættumatslíkans Hafró á erfðablöndun „gerir almennt ráð fyrir lítilli innblöndun í flestar ár en Laugardalsá, Hvannadalsá og Langadalsá í Ísafjarðardjúpi, ásamt Breiðdalsá í Breiðdal virðast allar í talsverðri hættu vegna innblöndunar eldisfisks.“

Vegna þessa leggur Hafrannsóknastofnun til að eldi verði ekki leyft í Ísafjarðardjúpi vegna mikilla neikvæðra áhrifa í Djúpinu. Þá er af sömu ástæðu lagt til að eldi verði ekki aukið í Berufirði og lagst gegn eldi í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsá.

Auk þessa voru lagðar til mótvægisaðgerðir til að sporna við erfðablöndun, til dæmis að leggja enn meiri áherslu á að næg hrygning sé ávallt til staðar í náttúrulegum laxveiðiám.

Engin bein fyrirmæli eru um það í lögum að Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun líti til áhættumatsins þegar umhverfisáhrif fiskeldis eru metin. Hins vegar hafa stofnanirnar nýtt áhættumatið, til dæmis þegar kemur að því hversu mikið eldi hægt sé að fara í á tilteknum svæðum.

Hafró greindi frá því fyrr á þessu ári að stofnunin muni fara í endurskoðun á áhættumatinu. Í sömu tilkynningu var sagt frá því að á síðasta þingi hefði verið lagt fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um fiskeldi þar sem meðal annars var lagt til að áhættumat erfðablöndunar yrði lögfest. Frumvarpið náði ekki fram að ganga en samkvæmt þingmálaskrá yfirstandandi þings stendur til að leggja frumvarpið fram á ný.


Laxalúsin vandamál í Noregi

Í áliti Skipulagsstofnunar eru helstu neikvæðu áhrif laxeldisins í Patreksfirði og Tálknafirði rakin. Felast þau að mati stofnunarinnar helst í áhrifum á fisksjúkdóma, laxalús, náttúrulega stofna laxfiska og botndýralíf.

Þannig verði aukin hætta á því að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta laxfiskstofna, en reynslan frá Noregi sýni að ef laxalús aukist á eldisfiski geti það fljótt orðið að faraldri. Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri yfir ferskvatnslífríkissviði hjá Hafrannsóknastofnun, segir að vegna laxalúsar séu Norðmenn búnir að stöðva viðbótarlaxeldisleyfi í sjókvíaeldi þar til að búið sé að ná tökum á vandamálinu.

Það sé þó ekki þannig að Norðmenn séu að hverfa frá sjókvíaeldi að öllu leyti; í Noregi séu framleiddar upp undir 1,3 milljónir tonna af fiski í eldi á ári hverju og langstærstur hluti framleiðslunnar sé úr sjókvíaeldi.
 
„Ástæðan fyrir því að þeir eru búnir að setja hömlur á fjölgun eldisleyfa er sú að lúsasmit er að auka dánartíðni á villtum löxum í norskum ám. Það eru 50 þúsund færri laxar að ganga í ár í Noregi og það er rakið til lúsavandamálsins,“ segir Guðni.

Vegna þessa sé búið að þrengja staðla í norsku laxeldi og efla eftirlitskerfið. Þannig þurfi eldisstöðvar til dæmis að senda upplýsingar til norsku matvælastofnunarinnar í hverri viku varðandi fjölda lúsa á fiskum, fjölda fiska og ef eitthvað sleppur út þá þarf að tilkynna það sérstaklega.

Guðni segir að menn hafi í fyrstu talið að lúsin kæmi ekki upp í eldinu hér því sjórinn væri of kaldur. Reynslan sýni hins vegar að lúsin geti orðið vandamál.

„Vandamálið við lúsina er það að menn fundu lyf en lúsin verður tiltölulega fljótt ónæm svo þá þarf að finna ný lyf,“ segir Guðni og bendir jafnframt á að lúsin geti fjölgað sér gríðarlega mikið í sjókvíum.

Matvælastofnun gefur út rekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja. fréttablaðið/anton brink

Telja atriði sem snúa að vöktun laxalúsar í samræmi við álit Skipulagsstofnunar

Vegna reynslunnar í Noregi taldi Skipulagsstofnun að setja þyrfti fyrirtækjunum tiltekin skilyrði til að draga úr hættu á því að laxalús frá eldinu skaði villta laxfiskstofna í Patreksfirði og Tálknafirði.

Fjallað er um þetta í greinargerð MAST vegna útgáfu rekstrarleyfa til Fjarðarlax og Arctic Sea Farm. Er þar vísað í að samkvæmt reglugerð um fiskeldi sé fiskeldisstöðvum skylt að hafa eftirlit með laxalús. Setja rekstraraðilar fram áætlun um vöktun og viðmið í gæðahandbók auk þess sem þeir munu fara eftir leiðbeiningum MAST um lúsatalningu og vöktun lúsasmits í sjókvíum.

Þá leggur MAST til varðandi viðmið um heimilaðan fjölda laxalúsa að hámarksfjöldi laxalúsar verði ekki miðaður við hvern fisk heldur „að brugðist verði við ef laxalús verður áberandi í eldi og meta þá aðstæður hverju sinni, m.t.t. árstíma, stærðar fiskar og staðsetningar.“

MAST telur að atriði er snúa að vöktun laxalúsar og sýnatöku á þeim tíma ársins sem aðstæður eru fyrir vöxt hennar eru hagstæðar séu í samrmæi við álit Skipulagsstofnunar.

Hins vegar telur MAST að ekki sé að fullu hægt að verða við álitinu er varðar viðmið um heimilaðan fjölda laxalúsa með hliðsjón af áætlaðri hættu á afföllum villtra laxfiska þar sem viðmiðin séu sett af rekstraraðilum sjálfum, samkvæmt reglugerð um fiskeldi.

Ekki talið líklegt að framkvæmdin muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér

Í starfsleyfum Umhverfisstofnunar til handa Fjarðalaxi og Arctic Sea Farm eru settar fram kröfur um að rekstraraðilar skuli vakta helstu umhverfisþætti í nágrenni við kvíar sínar. Segir í greinargerð með starfsleyfinu að Umhverfisstofnun telji að „þær kröfur og sú vöktun sem tilgreind er í starfsleyfi og vöktunaráætlun sé fullnægjandi til að draga úr neikvæðum áhrifum mengunar frá eldinu á annað lífríki fjarðarins.

„Umhverfisstofnun tekur undir þau atriði sem bent er á er varða losun líf niðurbrjótanlegs úrgangs og áhrif þess á nærumhverfið og botndýralíf. Með starfsleyfinu er dregið úr þeim áhrifum á botn fjarðarins með hvíld svæða milli kynslóða, sem er að lágmarki 6 mánuðir. Með þeim hætti er gert ráð fyrir að botninn nái að jafna sig á milli eldislota og gerðar eru mælingar til að meta ástandið.“

Umsögn Umhverfisstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum laxeldis Fjarðalax og Arctic Sea Farm, frá því í nóvember 2015, má sjá hér. Niðurstaða stofnunarinnar er að hún telji ekki líklegt að framkvæmdin muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Segir meðal annars í niðurstöðu stofnunarinnar:

„Umhverfisstofnun telur að helstu neikvæðu þeirrar framkvæmdar sem hér um ræðir felist í neikvæðum áhrifum vegna uppsöfnunar úrgangs á hafsbotni undir eldiskvíunum. Talið er að þessi áhrif séu afturkræf og að svæðin muni ná sér að mestu að lokinni hvíld. Umhverfisstofnun telur að taka eigi sýni að hvíld lokinni til að sannreyna að kynslóðabundið eldi skili þeim umhverfisáhrifum sem til er ætlast. Umhverfisstofnun mun taka á þessum atriðum hvað varðar umhverfisvöktun við vinnslu starfsleyfis. Ekki að [sic] talið að eldið muni hafa neikvæð áhrif á villta laxfiska hvorki m.t.t. sjúkdóma eða erfðablöndunar.“

Úrskurðurinn sýni að skýra þurfi lög og reglur betur

Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir úrskurð ÚUA um ógildingu rekstrarleyfa og starfsleyfa Fjarðalax og Arctic Sea Farm draga fram að reglur varðandi leyfisveitingar og mat á umhverfisáhrifum þurfi að vera skýrari. Þannig þurfi til að mynda að skýra það út nánar bæði í lögum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum hvað teljist raunhæfir valkostir.

Þá segir Sigrún jafnframt nauðsynlegt að skýra betur í lögum hvert hlutverk og ábyrgð leyfisveitenda sé annars vegar og svo hins vegar Skipulagsstofnunar. Þar þurfi að líta til þess að gera aðskilnað á milli rekstrarleyfis og starfsleyfis mun skýrari, það er á hverju Umhverfisstofnun eigi að taka og á hverju Matvælastofnun eigi að taka.
 
Undir þetta taka bæði Viktor Stefán hjá MAST og Ásdís Hlökk hjá Skipulagsstofnun.

„Hvað er nefndin að biðja um? Er nefndin að biðja um að við förum þá í gegnum allt matið og endurskoðum alla vinnu Skipulagsstofnunina? Ef svo er þá þurfa allir leyfisveitendur á Íslandi að endurskoða alla vinnu sem Skipulagsstofnun hefur framkvæmt. Það er ekki í samræmi við það hvernig stjórnsýslan er uppbyggð að fara að ætla stofnunum að hafa eftirlit eða taka út störf hliðstæðra stofnana,“ segir Viktor Stefán um það sem nefndin tiltekur varðandi það að hvorki MAST né UST hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína þegar kom að því hvort að álit Skipulagsstofnunar hafi getað verið lögmætur grundvelli fyrir útgáfu leyfanna.

Þá segir Viktor Stefán að miðað við úrskurðinn sé það ljóst að það þurfi einhvern veginn að tryggja að svona geti ekki komið fyrir aftur.

Ásdís Hlökk segir að úrskurðirnir sýni að ákvæði um valkostagreiningu í lögum um mat á umhverfisáhrifum verði að útskýra nánar í lögunum. Þá þurfi jafnframt að skýra nánar hvernig sambandi þeirra opinberu stofnana sem koma að ferlinu sé háttað.
 
„Þetta er tilefni til þess að rýna þetta ferli og skoða það og hvort og þá hvernig er hægt að bregðast við þessu. En auðvitað er það þannig að fiskeldi af þessu umfangi er ný atvinnugrein og það eru þarna ýmsar áleitnar spurningar um umhverfisáhrif. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að undirbúningur fyrir svona starfsemi taki dálítinn tíma en auðvitað þarf að vera sem mest vissa um hvernig það ferli er.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.