Innlent

Fá ekki ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í deilu um rekstrarleyfi

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Landsréttur.
Landsréttur.
Landsréttur hefur hafnað kröfum tveggja fiskeldisfyrirtækja um dómkvaðningu matsmanna og ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins vegna máls sem höfðað var til ógildingar á rekstrarleyfum þeirra.

Leyfin veitti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 5. nóvember síðastliðinn á grundvelli lagasetningar sem samþykkt var á Alþingi í kjölfar þess að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi rekstrarleyfi fyrirtækjanna úr gildi síðastliðið haust.

Landeigendur og náttúruverndarsamtök höfðuðu mál til að fá rekstrarleyfin ógilt og 14. janúar féllst héraðsdómur á að málið fengi flýtimeðferð, enda um að ræða starfsemi, á svæði viðkvæmrar náttúru, sem grundvallast ekki á lögmætu umhverfismati.

Eftir að flýtimeðferð var veitt hefur málið velkst fram og aftur og ekki enn verið flutt efnislega. Fiskeldisfyrirtækin kröfðust frávísunar málsins 6. febrúar. Því hafnaði héraðsdómur 22. febrúar.

Fyrirtækin lögðu aftur fram greinargerð 6. mars og gerðu annars vegar kröfu um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins um fjögur tilgreind atriði og hins vegar að dómkvaddir matsmenn skiluðu rökstuddri matsgerð um ýmis atriði sem tíunduð eru í greinargerð. Báðum kröfum var hafnað í héraði og var sá úrskurður staðfestur í Landsrétti í gær. Málið verður væntanlega flutt munnlega fyrir réttarhlé dómstóla enda um flýtimeðferðarmál að ræða.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×