Innlent

Nýr loftslagshópur boðar róttækar aðgerðir

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hópurinn mun hittast vikulega og ræða loftslagsmálin.
Hópurinn mun hittast vikulega og ræða loftslagsmálin. Fréttablaðið/GVA
Nýstofnaður loftslagshópur mun hittast vikulega til að leggja fram hvatningar og áskoranir til stjórnvalda og fyrirtækja. Talskona hópsins vill sjá sterkari framtíðarsýn stjórnvalda en hún segir forgangsröðun þeirra oft á tíðum ranga.

Loftslagshópur á vegum Landverndar mun funda á hverjum þriðjudegi með það að markmiði að hvetja stjórnvöld til róttækari aðgerða í loftslagsmálum en nú liggur fyrir. Hópurinn byrjaði með umræðum á Facebook.

„Og það var bara undiralda í samfélaginu og kominn tími til að kalla saman fólk og vera þrýstiafl til að knýja fram róttækar aðgerðir, hvort sem það eru stjórnvöld, fyrirtæki eða einstaklingar. Við erum fyrst og fremst að skoða hvaða aðgerðir er hægt að fara í því við erum með allar upplýsingar. Vísindin eru komin og við vitum í hvað stefnir og nú er það að skoða hvað stjórnvöld og fyrirtæki geta gert,“ sagði Eva H. Baldursdóttir, talskona loftslagshópsins.

Hópurinn mun meðal annars leggja fram hvatningar og áskoranir til stjórnvalda og fyrirtækja.

„Og svo ætlum við að reyna að hrista aðeins upp í þessu og fara í einhverjar aðgerðir,“ sagði Eva.

Hún segir enn óljóst hversu róttækum aðgerðum hópurinn muni beita en að hennar sögn sýni sagan að árangursríkast er þegar fólk kemur saman og krefst breytinga.

Þá segir hún forgangsröðun stjórnvalda oft ranga. Sem dæmi tekur hún uppbygginguna við Keflavíkurflugvöll.

„Ef við ætlum að fara í fimmtíu prósent uppbyggingu á Leifstöð, hvað þýðir það eru þá ekki bara fleiri flugvélar að fara að koma sem knúnar eru áfram á jarðefnaeldsneyti. Er það stefnan okkar,“ sagði Eva.

Hún myndi vilja sjá stjórnvöld banna jarðefnaeldsneyti.

„Þar er mesta losun gróðurhúsalofttegunda og þetta er bara spurning um pólitíska ákvörðun,“ sagði Eva.


Tengdar fréttir

Loftslagshópur boðar alvöru aðgerðir

Loftslagshópur á vegum Landverndar boðar aktivisma og alvöru aðgerðir til að hvetja stjórnvöld til mun róttækari aðgerða í loftslagsmálum en nú liggur fyrir, eins og það er orðað í yfirlýsingu á vegum hópsins sem send var á fjölmiðla í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×