Innlent

Fangi safnaði 200 þúsund krónum fyrir Samhjálp

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá hlaupinu á laugardag.
Frá hlaupinu á laugardag. Vísir/Einar
Tæplega fimmtán þúsund tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardag og söfnuðu rúmum 167 milljónum króna til styrktar góðs málefnis í leiðinni. Af þessum 167 milljónum voru 200 þúsund krónur sem fangi á Hólmsheiði safnaði.

Greint er frá þessu á Facebook-síðu Fangelsismálastofnunar en þar segir að vistmaðurinn hafi ekki látið það stöðva sig að geta eðli málsins samkvæmt ekki tekið þátt í maraþoninu í Reykjavík.

Hann hljóp tíu kílómetra á hlaupabretti fangelsisins á sama tíma og hlaupið var í Reykjavík. Safnaði hann áheitum fyrir Samhjálp en Vörður Leví Traustason, forstöðumaður Samhjálpar, tók við afrakstrinum í gær, samtals 200 þúsund krónum.

Markmið Samhjálpar er að veita bjargir til þeirra einstaklinga sem halloka hafa farið í lífinu, vegna áfengis- og fíknisjúkdóms, fátæktar eða annarra samfélagslegra vandamála og með því stuðla að velferð og sjálfsbjörg þeirra. 

 




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×