Erlent

Á­kvörðun Boris John­son um að fresta þing­fundum líkt við valda­rán

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ákvörðun Johnson um að fresta þingfundum hefur verið mótmælt í London í kvöld.
Ákvörðun Johnson um að fresta þingfundum hefur verið mótmælt í London í kvöld. vísir/getty
Sú ákvörðun Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og formanns Íhaldsflokksins, um fresta þingfundum hefur verið sætt mikilli gagnrýni í dag og er óhætt að segja að stjórnarandstaðan á breska þinginu sé bálreið vegna málsins.

Þá komu mótmælendur saman við þinghúsið í London í kvöld og hrópuðu slagorðin „Stöðvið valdaránið“ og „Verndið lýðræðið okkar.“

Elísabet Englandsdrottning varð við beiðni Johnson í dag um að fresta þingfundum aðeins nokkrum dögum eftir að það kemur saman í september og þar til þann 14. október. Að óbreyttu gengur Bretland úr Evrópusambandinu þann 31. október.

Með frestun þingsins er talið ólíklegt neðri deild þingsins geti samþykkt lög sem ætlað væri að stöðva útgöngu Bretlands úr ESB án samnings við sambandið. Johnson hefur þó þvertekið fyrir það að hann sé að reyna að koma í veg fyrir slíka atkvæðagreiðslu á þinginu með frestuninni.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir ákvörðun Johnson árás á lýðræðið. Hann hefur óskað eftir fundi með Englandsdrottningu vegna málsins þar sem hann telur forsætisráðherrann fara gegn vilja meirihluta þingmanna.

John Bercow, forseti breska þingsins, sem vegna stöðu sinnar blandar sér sjaldan í pólitísk deilumál segir frestun þingsins svívirðu við stjórnarskrá landsins.

„Hvernig svo sem reynt er að mála þetta upp þá er það augljóst að með þessu á að stöðva þingmenn í því að ræða Brexit og koma þannig í veg fyrir að þeir geri skyldu sína,“ segir Bercow.

Amelia Womack, varaformaður Græningja í Bretlandi, mótmælti við þinghúsið í kvöld.

„Við erum hér til þess að mótmæla valdaráni Boris Johnson. Við erum með fulltrúalýðræði hér og með því að fresta þinginu þá er verið að taka burt lýðræðislegan rétt almennings,“ sagði Womack.





Þá lét Angela Smith, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í efri deild breska þingsins, Boris Johnson og ríkisstjórn hans fá það óþvegið í grein sem hún ritaði í tímarit þingsins, The House. Sagði hún ákvörðun forsætisráðherrans vera „trumpíska“ í anda og nánast valdarán.

„Án þess að hafa atkvæðin á bak við sig eða nokkurn almennan stuðning, reynir Johnson nú að koma í veg fyrir vilja neðri deildar þingsins með því einfaldlega að loka henni og reyna þannig að hindra kjörna þingmenn í því að sinna því starfi sem þeir voru kosnir til. Þetta er svívirða við stjórnarskrána, nánast valdarán og verður að mótmæla,“ skrifar Smith.

Stephen Doughty, þingmaðurinn Verkamannaflokksins, sagði Johnson heigul í sjónvarpsviðtali.

„Hann er heigull. Hann er á flótta frá okkur sem erum fulltrúar almennings og við munum ekki líða það,“ sagði Doughty. Ákvörðun Johnson væri ólýðræðisleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×